Forsvarsmenn Crewe vissu af misnotkuninni

Barry Bennell hefur þegar hlotið níu ára fangelsisdóm fyrir að …
Barry Bennell hefur þegar hlotið níu ára fangelsisdóm fyrir að misnota drengi kynferðislega.

Forsvarsmenn breska fótboltaliðsins Crewe Alexandra vissu þegar á seinni hluta níunda áratugarins að Barry Bennell, þjálfari yngri deilda, hefði verið sakaður um kynferðislega misnotkun. Bennell hélt engu að síður áfram að þjálfa liðið árum saman að því er fréttavefur Guardian hefur eftir fyrrum formanni fótboltafélagsins.

Guardian hefur eftir Hamilton Smith að forsvarsmenn félagsins hefðu rætt um að reka Bennell, en að þeir hefðu talið sig ekki hafa nægar sannanir.

Frétt mbl.is: Þjálfarinn nauðgaði honum 100 sinnum

Fjórir fyrrverandi knattspyrnumenn hafa nú stigið fram og greint frá því að Bennell hafi misnotað þá í æsku. Forsvarsmenn Crewe hafa ekki tjáð sig um málið, en hafa áður sagt að verið sé að „rannsaka“ málið og „skoða betur“ innan félagsins.

Rannsakendur fjögurra lögregluumdæma hafa staðfest að verið sé að rannsaka ásakanir um  barnamisnotkun í yngri deildum fótboltafélaga í landinu á árum áður.

Smith sagði við Guardian að forsvarsmenn félagsins, m.a. stjórnarformaðurinn Norman Rowlinson sem lést 2006, hefðu rætt málin á fundum. Bennell var ekki rekinn, en ákveðið var að hann mætti ekki lengur vera einn með drengjunum og tekið var fyrir að þeir fengju að gista á heimili hans.

Benn­ell er 64 ára í dag. Hann fékk fjög­urra ára dóm fyr­ir að nauðga bresk­um dreng á fót­bolta­ferðalagi í Flórída árið 1994. Þá fékk hann einnig níu ára dóm fyr­ir 23 brot gegn sex drengj­um á Englandi árið 1998.

Bennell var svo stungið í fang­elsi í þriðja sinn í fyrra er hann játaði að hafa beitt dreng of­beldi í fót­bolta­búðum árið 1980.

Knattspyrnustjóri Crewe, Dario Gradi, segist fyrst hafa frétt af misnotkun Bennell er hann var dæmdur í fyrsta sinn.

Andy Woodw­ard var sá fyrsti sem steig fram. Hann sagði að þegar hann var barn hefði Benn­ell beitt hann grófu of­beldi. Hann grét í gær er tveir fót­bolta­menn til viðbót­ar, Chris Unsworth og Jason Dun­ford, komu fram op­in­ber­lega og sögðu frá sinni reynslu. Unsworth seg­ist aldrei hafa sagt nokkr­um manni frá of­beld­inu fyrr en nú, en Benn­ell nauðgaði hon­um allt að hundrað sinn­um.

Forsvarsmenn ensku úrvalsdeildarinnar hafa lýst yfir áhyggjum af ásökununum og hafa hvatt alla sem búa yfir upplýsingum til að gefa sig fram. Þá hafa barnaverndarsamtökin NSPCC virkjað sérstaka neyðarlínu fyrir fórnarlömb eftir að misnotkunin var gerð opinber og hafa rúmlega 100 símtöl borist vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert