Fyrstur finnskra transmanna til að fæða barn

Segja finnskir fjölmiðlar málið einstakt, af því að parið ákvað …
Segja finnskir fjölmiðlar málið einstakt, af því að parið ákvað að gera hlé á hormónameðferð og transmaðurinn byrjaði þá á blæðingum á ný. Mynd úr safni. AFP

Mál finnsks transmanns, sem er sá fyrsti í landinu til að eignast barn, hefur vakið mikla athygli í fjölmiðlum ekki hvað síst varðandi umdeild lög sem sem segja ófrjósemi nauðsynlegan grunn þess að kyni sé breytt með lögum.

„Barnið vó 16 merkur og var 53 sm við fæðingu,“ hefur finnska fréttastofan Lannen Media eftir hinu stolta foreldri, sem nú er í fæðingarorlofi.

Transmaðurinn, sem ekki er nefndur með nafni, er á fertugsaldri. Hann breytti kyni sínu lagalega árið 2015 eftir að hafa undirgengist testósterónmeðferð um árabil, en ákvað svo að fresta því að undirgangast skurðaðgerð og reyna áður að eignast barn með eiginmanni sínum.

Samkvæmt finnskum lögum um hormónameðferð þarf viðkomandi að sanna að hann sé „ófrjór“ til að geta lagalega breytt kyni sínu úr konu í karl. Er Finnland eina Norðurlandið þar sem ófrjósemi er krafist. Raunin er hins vegar sú að finnskt heilbrigðisstarfsfólk úrskurðar transfólk ófrjótt eftir að það hefur undirgengist testósterónmeðferð um langt skeið. Viðkomandi einstaklingur getur hins vegar í sumum tilfellum orðið frjór á ný, ef hlé er gert á hormónameðferðinni.

Segja finnskir fjölmiðlar málið einstakt, af því að parið ákvað að gera hlé á hormónameðferð og transmaðurinn byrjaði þá á blæðingum á ný.

„Vil ég að þjóðfélagið fái að ákveða hvað ég get gert við líkama mitt og líf mitt?“ sagði transmaðurinn í viðtali við dagblaðið Helsingin Sanomat. „Það getur ekkert stoppað mig. Ég er frjáls.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert