Ungur drengur stunginn á leið í skólann

Drengurinn er ekki talinn í lífshættu.
Drengurinn er ekki talinn í lífshættu. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Lögreglan í Suður-Noregi hefur handtekið karlmann á sextugsaldri sem er grunaður um að hafa stungið ungan dreng er hann var á leið í skólann í morgun.

Í umfjöllun norska ríkisútvarpsins (NRK) segir að árásin hafi átt sér stað í sveitarfélaginu Moss í Austfold. Þá kemur fram að drengurinn sé á skólaaldri og að hann sé ekki talinn í lífshættu.

Sjónarvottar tilkynntu lögreglu um atvikið klukkan 8.34 að staðartíma og voru viðbragðsaðilar mættir á vettvang nokkrum mínútum síðar.

Virðist handahófskennt

Fjöldi barna varð vitni að því er ráðist var á drenginn á fjölförnum göngustíg skammt frá Verket-skólanum í Moss.

„Drengurinn var særður með, að því er virðist, hníf eða mögulega steini,“ segir Anders Strømsæther vettvangsstjóri í samtali við NRK.

„Okkur sýnist þetta vera gjörsamlega upp úr þurru. Að því sem við best vitum þá eru engin tengsl á milli þeirra tveggja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka