Símtal við kærastann slitnaði skyndilega

Lögreglumenn á vettvangi í Varhaug í morgun.
Lögreglumenn á vettvangi í Varhaug í morgun. Ljósmynd/Marius Vervik/VG

„Ég er komin heim. Sjitt!“ var það síðasta sem Sunniva Ødegård sagði við kærasta sinn áður en símtal þeirra slitnaði skyndilega um klukkan 22:30 í gærkvöldi. Þetta segir móðir kærastans í samtali við Stavanger Aftenblad.

NRK fjallar um viðtal Stavanger Aftenblad, en þar kemur fram að kærasti Sunnivu, sem er 14 ára gamall, hafi reynt að hringja aftur í hana, án árangurs. Hann reyndi líka að hringja í vin hennar, sem Sunniva hafði heimsótt fyrr um kvöldið, en fékk engar skýringar á því hvað gæti hafa átt sér stað.

Um miðnætti hringdi lögreglan svo heim til drengsins til þess að útiloka að Sunniva hefði farið til hans, en hann býr ásamt foreldrum sínum í bænum Egersund, sem er um 40 kílómetra frá smábænum Varhaug, þar sem Sunniva fannst látin í nótt, um 150 metra frá heimili sínu.

Á milli sex og sjö á mánudagsmorgun knúðu svo lögreglumenn dyra á heimili kærastans í Egersund og færðu fjölskyldunni fregnir af andláti Sunnivu, sem lögregla telur að hafi borið að með voveiflegum hætti.

Lögregla hefur beðið alla sem mögulega geta einhverjar upplýsingar veitt um málið að gefa sig fram. Fólk í Varhaug og nágrenni hefur verið beðið um að taka saman upplýsingar um hvenær það var úti, í hvers konar fötum það var, á hvernig bíl og önnur smáatriði, til þess að auðvelda lögreglurannsóknina.

Þrátt fyrir að lögregla telji líklegast að Sunnivu hafi verið ráðinn bani, vilja lögregluyfirvöld undirstrika að þau útiloki ekki aðra möguleika.

Hlekkur á viðtal Stavanger Aftenblad (Krefst áskriftar)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert