17 ára drengur er nú í haldi norsku lögreglunnar, grunaður um að hafa myrt 13 ára stúlku í bænum Varhaug í Rogalandi á sunnudagskvöld.
Norska ríkisútvarpið NRK hefur þetta eftir talsmanni lögreglunnar, en drengurinn er einnig grunaður um aðild að innbroti í nágrenninu sama kvöld.
Stúlkan, Sunniva Ødegård, fannst látin skammt frá heimili sínu aðfaranótt mánudags. Sunniva hafði verið hjá vini sínum og átti hún að vera komin heim klukkan 23:00. Þegar hún skilaði sér ekki fór faðir stúlkunnar að leita að henni og rakst hann á lögreglubifreið sem var í smábænum vegna tilkynningar um innbrot. Upplýsti hann lögregluna um stöðu mála sem hóf leit að stúlkunni ásamt nokkrum íbúum og fannst lík Sunnivu um klukkan 03:10, 01:10 að íslenskum tíma, á göngustíg skammt frá heimili hennar.
NRK hefur eftir Herdis Traa, lögmanni lögreglunnar, að drengurinn hafi verið yfirheyrður í gær. „Hann neitar að hafa gert það sem hann er grunaður um, en hann var á staðnum,“ segir Traa.
Lögregla tjáir sig hins vegar ekki frekar um það hvers vegna drengurinn liggur undir grun, en hann er sagður tengjast téðu innbroti í nágrenninu á sunnudagskvöld.