17 ára grunaður um morðið á Sunnivu

Lögreglumenn á vettvangi í Varhaug. Lögregla hefur nú 17 ára …
Lögreglumenn á vettvangi í Varhaug. Lögregla hefur nú 17 ára dreng grunaðan um morðið. Ljósmynd/Marius Vervik/VG

17 ára drengur er nú í haldi norsku lögreglunnar, grunaður um að hafa myrt 13 ára stúlku í bænum Varhaug í Rogalandi á sunnudagskvöld.

Norska ríkisútvarpið NRK hefur þetta eftir talsmanni lögreglunnar, en drengurinn er einnig grunaður um aðild að innbroti í nágrenninu sama kvöld.

Stúlkan, Sunniva Ødegård, fannst látin skammt frá heimili sínu aðfaranótt mánudags. Sunniva hafði verið hjá vini sín­um og átti hún að vera kom­in heim klukk­an 23:00. Þegar hún skilaði sér ekki fór faðir stúlk­unn­ar að leita að henni og rakst hann á lög­reglu­bif­reið sem var í smá­bæn­um vegna til­kynn­ing­ar um inn­brot. Upp­lýsti hann lög­regl­una um stöðu mála sem hóf leit að stúlk­unni ásamt nokkr­um íbú­um og fannst lík Sunni­vu um klukk­an 03:10, 01:10 að íslenskum tíma, á göngu­stíg skammt frá heim­ili henn­ar.

NRK hefur eftir Herdis Traa, lögmanni lögreglunnar, að drengurinn hafi verið yfirheyrður í gær. „Hann neitar að hafa gert það sem hann er grunaður um, en hann var á staðnum,“ segir Traa.

Lögregla tjáir sig hins vegar ekki frekar um það hvers vegna drengurinn liggur undir grun, en hann er sagður tengjast téðu innbroti í nágrenninu á sunnudagskvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert