Mögulega tilviljun að Sunniva var drepin

Sunniva Ødegård var þrettán ára.
Sunniva Ødegård var þrettán ára.

Hvernig var hin þrettán ára gamla Sunniva Ødegård drepin og hvers vegna? Þetta eru spurningar sem margir Norðmenn spyrja sig nú. Þar sem lík hennar fannst fljótt eftir að hún var myrt eru taldar meiri líkur en ella á því að hið óhugnanlega morðmál verði fljótt upplýst að fullu.

Sunniva fannst látin á göngustíg í aðeins um 150 metra fjarlægð frá heimili sínu í Varhaug aðfaranótt mánudags. Fjölskyldan hennar hafði tilkynnt lögreglu um hvarf hennar kvöldið áður eftir að hún skilaði sér ekki heim úr heimsókn til vinar síns. Faðir hennar hafði þá farið út um miðnætti til að leita að henni. Lögreglan var á á þeim tíma þegar á svæðinu vegna tilkynningar um innbrot í grenndinni.

Talaði við kærastann

Síðustu samskiptin sem hún er talin hafa átt fyrir andlátið er símtal við fjórtán ára gamlan kærasta sinn klukkan 22.30 að kvöldi sunnudags. „Nú er ég komin heim. Sjitt!“ sagði hún áður en símtalið rofnaði.

Í frétt norska ríkisútvarpsins um málið segir að lík Sunnivu hafi fundist klukkan 3.10 um nóttina. Lögreglan hefur ekki enn getað staðfest að fundarstaðurinn sé sá hinn sami og hún var drepin á.

Sautján ára piltur var í fyrradag handtekinn grunaður um að hafa orðið stúlkunni að bana. Hann neitar sök en viðurkennir að hann hafi verið í grennd við staðinn þar sem lík hennar fannst.

Hefur játað innbrotið

Nokkrum tímum áður en Sunniva var drepin var brotist inn í leikskóla í Varhaug í um 700 metra fjarlægð frá þeim stað sem stúlkan fannst látin. Pilturinn, sem hefur verið handtekinn grunaður um morðið, hefur játað á sig innbrotið. 

Lögreglan hefur ekki viljað tjá sig um tilgátur sínar varðandi það hvers vegna hinn grunaði drap hana. Það eina sem hún vill segja er að morð hafi verið framið. Hún telur útilokað að Sunniva hafi orðið vitni að innbrotinu. Yfirlögregluþjónninn sem fer fyrir rannsókninni segir við VG í dag að mögulega hafi það verið tilviljun að Sunniva var drepin. Allir möguleikar séu hins vegar skoðaðir. 

Góðkunningi lögreglunnar

Pilturinn sem er í haldi hefur komið við sögu lögreglunnar áður en þó ekki vegna ofbeldisverka. Hann tengist m.a. íkveikju í skóla í Varhaug í byrjun júlí.

Samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins mætti pilturinn sjálfviljugur til lögreglu sem vitni. Hann var svo úrskurðaður í varðhald vegna gruns um morðið á mánudagskvöld og hefur nú verið yfirheyrður í tvígang.

VG segir lögreglu hafa lagt hald á hjól drengsins í dag, en tvö vitni segja hann hafa hjólað fram hjá þeim á ofsahraða í nágrenni þess staðar þar sem Sunniva fannst látin um klukkutíma áður en lögregla fann hana.

„Hann horfði niður, niður,“ sagði vitnið við VG. „Sem mér fannst skrýtið því yfirleitt er hann ræðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert