Minnast Sunnivu sem glaðlyndrar stúlku

Sunniva Ødegård var þrettán ára er hún var myrt.
Sunniva Ødegård var þrettán ára er hún var myrt.

Norsku lögreglunni hefur tekist að hafa uppi af tveimur nýjum vitnum í tengslum við morðið á Sunnivu Ødegård, 13 ára stúlku sem fannst látin skammt frá heimili sínu í smá­bæn­um Var­haug í Roga­landi aðfaranótt mánudags í síðustu viku.

Sunniva var á leið heim til sín frá vini sín­um er hún lést og hefur lögregla nú staðfest að hún telji Sunnivu hafa farið frá vini sínum klukkan 22.15 og að hún viti hvaða leið hún hafi farið. Auglýsir hún því nú eftir öllum þeim sem kunna að hafa verið á því 850 metra svæði sem er á milli heimilis vinar Sunnivu og heimils foreldra hennar á þeim tíma sem hún var þar á ferðinni.

Síðustu sam­skipt­in sem Sunniva er tal­in hafa átt fyr­ir and­látið er sím­tal við fjór­tán ára gaml­an kær­asta sinn klukk­an 22.30 að kvöldi sunnu­dags. „Nú er ég kom­in heim. Sjitt!“ sagði hún áður en sím­talið rofnaði. Lík henn­ar fannst aðfaranótt mánu­dags við göngu­stíg ná­lægt brú.

Vita hvar morðið var framið

Greint hefur verið frá því að lögregla viti hvar Sunniva var myrt en hún vill ekki veita upp­lýs­ing­ar að svo stöddu um hvar morðið átti sér stað eða hvort það hafi verið á sama stað og hún fannst lát­in aðfaranótt mánu­dags.

Á fimmtudag auglýsti lögreglan eftir pari um tvítugt sem átti að hafa verið á gangi í nágrenni staðarins þar sem Sunniva fannst látinn og greindi norska ríkisútvarpið NRK frá því í dag að lögregla telji parið vera fundið.

„Við höfum verið í sambandi við tvo einstaklinga sem við teljum vera þá sem lýst var eftir og óskum eftir að komast í samband við fleiri sem kunna að hafa verið á ferð á svæðinu í kringum Kråkevegen, Møllevegen og þar sem líkið fannst,“ staðfestir Bjørn Kåre Dahl hjá norsku lögreglunni.

Yfirheyrður á ný á morgun

17 ára drengur, sem er í haldi lögreglu grunaður um morðið á Sunnivu, verður yfirheyrður á ný á morgun. „Planið er að yfirheyra hann á morgun,“ sagði Dahl og  kvaðst bjartsýnn á að yfirheyrslan muni skila árangri.

Dreng­ur­inn er einnig grunaður um aðild að inn­broti í ná­grenn­inu sama kvöld og hef­ur hann játað að hafa verið þar að verki. Hann neit­ar hins veg­ar að tengj­ast morðinu á Sunnivu en viður­kenn­ir að hann hafi verið í grennd við staðinn þar sem lík henn­ar fannst.

Nokkr­ar til­raun­ir hafa verið gerðar til að yf­ir­heyra dreng­inn en þær hafa ekki skilað ár­angri. Hann dvel­ur í ung­lingafang­els­inu í Ber­gen á meðan rann­sókn máls­ins stend­ur yfir. Dreng­ur­inn hef­ur komið við sögu lög­regl­unn­ar áður en þó ekki vegna of­beld­is­verka. Hann teng­ist meðal ann­ars íkveikju í skóla í Var­haug í byrj­un júlí.

Félagslynd og glöð stúlka

Foreldrar Sunnivu sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem þeir minntust hennar sem glaðlyndrar stúlku.

„Sunniva var glöð og hamingjusöm stúlka. Hún var félagslynd og fannst gaman að vera með vinum sínum,“ segir í yfirlýsingunni. „Söknuðurinn eftir Sunnivu er mikill og kemur í bylgjum. Söknuðurinn og sorgin eru sérstaklega sterk þegar við erum ein og fáum tíma til að hugsa um það sem gerðist.“

Foreldrar drengsins sem grunaður er um morðið eru þeim þó einnig hugleiknir.

„Okkur finnst hörmulegt að það sé ungur maður úr nágrenninu sem er grunaður um morðið,“ skrifa foreldrarnir, Ninni og Magne Ødegård. „Okkur verður líka hugsað til þess hvernig foreldrum hans líður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert