Ólíklegt að einhver finnist á lífi

AFP

Staðfest er að um 1.400 hafa látist í náttúruhamförunum á indónesísku eyjunni Sulawesi og er talið nánast óhugsandi að nokkur finnist á lífi héðan í frá. Jarðskjálfti upp á 7,5 stig reið yfir eyjuna á föstudaginn og fylgdi sex metra há flóðbylgja í kjölfarið. 

AFP

Stjórnvöld hafa sett föstudag sem síðasta mögulega dag til að finna einhvern á lífi í húsarústunum. Björgunarsveitir vinna hörðum höndum við að leita í rústunum en aðaláherslan er lögð á sex staði í strandborginni Palu og nágrenni. Þar á meðal Roa-Roa-hótelið en talið er að sextíu manns séu grafnir undir rústum hótelsins. Jafnframt er leitað í rústum verslunarmiðstöðvar og veitingastaðar sem og á Balaroa-svæðinu en svæðið varð nánast að engu eftir skjálftann.

AFP

Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum er áætlað að 200 þúsund manns séu í bráðri hættu, þar á meðal tugir þúsunda barna. Áætlað er að 66 þúsund heimili hafi eyðilagst eða skemmst mikið í hamförunum. 

Þrátt fyrir að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur gengur illa að koma aðstoð í einhver þorp. Þar á meðal er Wani í Donggala-héraði en íbúar þar segjast hafa fengið lítinn sem engan stuðning. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert