Morðinginn sakhæfur

Sunniva Ødegård var þrettán ára þegar drengurinn myrti hana á …
Sunniva Ødegård var þrettán ára þegar drengurinn myrti hana á hrottalegan hátt í Noregi.

Drengurinn sem játaði morðið á Sunniva Ødegård í smábænum Varhaug í suðvesturhluta Noregs í júlí er metinn sakhæfur af réttarsálfræðingum, þetta staðfestir Lars Ole Berge, yfirlögregluþjónn suðvesturumdæmis, í samtali við fréttastofu norska ríkisútvarpsins NRK.

Lík hinnar 13 ára gömlu Sunnivu fannst skammt frá heimili hennar aðfaranótt 30. júlí og setti lögreglan samstundis í gang umfangsmikla rannsókn og leit.

Hún hafði verið beitt harkalegu ofbeldi á tveimur stöðum. Annars vegar við steintröppur skammt frá staðnum þar sem hún fannst og svo á öðrum stað sem ekki hefur verið greint frá, en líkið hafði verið fært frá dánarstað.

Sautján ára drengur gaf sig fram sem vitni skömmu eftir líkfundinn, en játaði 9. ágúst að hafa myrt stúlkuna.

Berge segir skýrslu tveggja réttarsálfræðinga verða lagða til grundvallar fyrir kröfu ákæruvaldsins um að drengurinn verði úrskurðaður sakhæfur, en að það sé undir dómstólum komið.

Fyrirtaka málsins fyrir dómstólum er talinn verða þegar dregur nær sumri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert