Trump svarar í sömu mynt

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, og Donald Trump Bandaríkjaforseti eiga …
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, og Donald Trump Bandaríkjaforseti eiga í áhugaverðum bréfasamskiptum þessa dagana sem tengjast lokun alríkisstofnana. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur frestað ferð Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, til Brussel, Afganistan og Egyptalands og segir hann lokun alríkisstofnana vera ástæðu frestunarinnar.

„Ég er fullviss um að þú sért sammála að frestun á þessari opinberu heimsókn er viðeigandi,“ segir í bréfi sem Trump sendi Pelosi í dag. Með bréfinu er hann að svara Pelosi, sem sendi honum bréf í gær þar sem hún hvetur hann til að fresta ár­legri stefnuræðu sinni (e. state of the uni­on) vegna þess ástands sem skap­ast hef­ur vegna lok­ana al­rík­is­stofn­ana síðustu 27 daga.

Um fjórðung­ur banda­rískra rík­is­stofn­ana hef­ur verið lokaður í rúm­lega þrjár vik­ur þar sem Trump hef­ur neitað að skrifa und­ir fjár­lög árs­ins nema þar verði sett sér­stakt fjár­magn til að reisa múr á landa­mær­um Banda­ríkj­anna að Mexí­kó. Þar sem Trump er æðsti yfirmaður herafla Bandaríkjanna hefur hann vald til að hafa áhrif á flugferðir þingmanna sem nýta jafnan flugvélar hersins til ferðalaga.

Trump segir í bréfinu að Pelosi geti ferðast á eigin vegum kjósi hún það en hann vilji helst hafa hana í höfuðborginni svo þau geti átt samtal um fjámögnun landamæramúrsins. Pe­losi hef­ur hingað til full­yrt að ekki komi til greina að verða við kröf­um Trumps.

Ákvörðun Trump um að fresta ferðalögum Pelosi kom á seinustu stundu eða aðeins um klukkutíma áður en flugvélin átti að fara í loftið. Fjölmiðlar vestanhafs hafa bent á að ekki var búið að tilkynna um ferð Pelosi og furða þeir sig á að forsetinn hafi greint frá ferð hennar á stríðssvæði en ekki hafði verið greint frá förinni vegna öryggisástæðna.

Allt var klárt fyrir ferðalagið, þar til Trump frestaði öllu …
Allt var klárt fyrir ferðalagið, þar til Trump frestaði öllu saman. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert