Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að fresta stefnuræðu sinni í bandaríska þinginu þar til lausn hefur verið fundin á fjárlagadeilunni.
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar þingsins, meinaði Trump í gærkvöldi að flytja stefnuræðu sína í næstu viku af öryggisástæðum. Trump brást við með því að segja að Pelosi vildi ekki heyra sannleikann um öryggi á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Frá þessu greinir hann í færslu á Twitter þar sem hann segir að Pelosi hafi boðið honum að halda stefnuræðuna á sínum tíma þrátt fyrir að lokun fjölmargra alríkisstofnana stæði enn yfir og að hann hefði samþykkt. „Hún skipti svo um skoðun vegna lokunarinnar, og lagði til að ræðan yrði haldin seinna.“ Trump heldur svo áfram og segir að það sé ekki hennar að ákveða hvenær hann haldi ræðuna. „Ég mun halda stefnuræðuna þegar lokunin er að baki,“ segir Trump loks.
Í færslunni segir hann jafnframt að það komi ekki til greina að flytja stefnuræðuna annars staðar þar sem enginn annar staður komist í hálfkvisti við þingsalinn hvað sögu, hefðir og mikilvægi varðar. Trump segist hlakka til að halda „stjórkostlega ræðu í náinni framtíð.“
Hluti alríkisstofnana í Bandaríkjunum hefur verið lokaður í á fimmtu viku frá því að Trump neitaði að skrifa undir fjárlögin nema demókratar í öldungadeild Bandaríkjaþings samþykki að veita fjármagni til byggingar veggjar á landamærum landsins að Mexíkó.
Bandaríkjaþing mun á fimmtudag kjósa um tvö aðskilin frumvörp sem geta, verði þau samþykkt, bundið endi á lokanir ríkisstofnana. Annað frumvarpið nýtur stuðnings Donald Trumps Bandaríkjaforseta og er þar gert ráð fyrir 5,7 milljörðum dollara í múrinn sem forsetinn vill reisa á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Hitt frumvarpið gerir einfaldlega ráð fyrir að fjárlög fáist framlengd til 8. febrúar.