Donald Trump Bandaríkjaforseti er efins um að hægt verði að ná samkomulagi um fjárveitingu til landamæraeftirlits áður en þriggja vikna hléi á lokunum bandarískra ríkisstofnana lýkur.
Forsetinn ræddi við Wall Street Journal þegar 800.000 alríkisstarfsmenn sneru aftur til vinnu eftir 35 daga lokun; þá lengstu í sögu Bandaríkjanna.
Trump efast um að hann sé tilbúinn að lækka upphæðina sem á að fara í múrinn á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Hann hefur til þessa neitað að undirrita fjárlagafrumvarpið, þar sem demókratar hafa ekki viljað gera ráð fyrir 5,7 millarða dollara fjármögnun múrsins þar í.
Annað fjárlagafrumvarp er til umræðu og hefur þingið til 15. febrúar til að koma í veg fyrir frekari lokanir.
Trump sagði að líkurnar á niðurstöðu sem allir gætu sætt sig við væru „minni en 50%.“
„Ég verð að gera þetta rétt,“ sagði forsetinn þegar hann var spurður að því hvort hann myndi sætta sig við minna en 5,7 milljarða dollara til að fjármagna múrinn.