Fundu músamúmíur í grafhýsinu

Múmíugerðar mýs voru meðal fornmuna sem fundust nýlega við uppgröft á grafhýsi í nágrenni bæjarins Sohag í Egyptalandi. Hafði músunum og öðrum dýrum verið komið fyrir í kringum múmíur tveggja einstaklinga sem lágu í greftrunarklefa grafhýsisins, en klefinn var skreyttur myndum af líkfylgd og fólki við landbúnaðarstörf.

Að sögn BBC þá telja sérfræðingar grafhýsið vera yfir 2.000 ára gamalt, en það er talið vera hinnsti hvílustaður háttsetts embættismanns Tutu og eiginkonu hans. Grafhýsið fannst í október í fyrra, þegar smyglarar sem voru í óleyfi að grafa eftir fornmunum voru gripnir.

Egypska fornminjaráðuneytið vonast til að fundur grafhýsisins muni fjölga ferðamönnum í Sohag, en ferðamönnum fækkaði umtalsvert í landinu í kjölfar mótmælanna í landinu árið 2011.

Segir Mostafa Waziri, fornminjaráðherra Egyptalands, grafhýsið vera „fallegt og litríkt“ og að það sé einn „mest spennandi fundur á svæðinu frá upphafi“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert