Mótmæla löggjöf Brúnei í London

Hassanal Bolkiah, soldán í Brúnei.
Hassanal Bolkiah, soldán í Brúnei. AFP

Nokkur hundruð mótmælenda hafa mótmælt í dag fyrir utan Dorchester lúxushótelið í London sem er í eigu brúneiskra aðila. Mótmælin eru tilkomin vegna nýrrar löggjafar þar í landi þar sem dauðarefsing er lögð við kynlífi samkynhneigðra. Þá er sú refsing lögð við þjófnaði að þjófar verði aflimaðir, þ.e. hendur og fætur þeirra teknir af.

Löggjöfin hefur vakið vond viðbrögð víða um heim og heimsfrægt fólk á borð við George Clooney, leikara og Elton John, tónlistarmann, hafa kallað eftir því að hótelkeðjur sem hafi tengsl við Brúnei verði sniðgengin. Þá hafa sumir stjórnmálamenn og mannréttindasamtök gagnrýnt löggjöfina harðlega. Breska ríkisstjórnin hefur lýst afstöðu sinni til laganna og sagt þau skref aftur á bak fyrir Brúnei, en ríkið fékk sjálfstæði frá Bretum árið 1984.

Oxfordháskóli hyggst endurskoða ákvörðun sína um að veita brúneiska soldáninum Hassanal Bolkiah heiðursgráðu. Þá hefur Deutche Bank fjarlægt Dorchester hótelkeðjuna af lista sínum yfir hótel sem starfsmenn nota á ferðalögum. 

Hótelkeðjan sagðist í tilkynningu skilja reiði og angist fólks vegna hinnar nýju löggjafar. „En þetta mál sem tengist stjórnmálum og trúarbrögðum og við trúum því að þetta eigi ekki að bitna á hótelum okkar og 3.630 starfsmönnum þeirra,“ sagði í tilkynningu frá keðjunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert