Tók út tíu milljónir til að horfa á þær

Aliko Dangote, ríkasti maður Afríku.
Aliko Dangote, ríkasti maður Afríku.

Aliko Dangote, nígerískur milljarðamæringur, sem þekktur er sem ríkasti maður Afríku upplýsti ráðstefnugesti Mo Ibrahim ráðstefnunnar í Abidjan um það í dag að hann hefði eitt sinn tekið út af bankareikningi sínum tíu milljónir bandaríkjadala í seðlum, í þeim tilgangi einum að horfa á peningastæðuna og átta sig fyllilega á því að um raunverulega peninga væri að ræða, en ekki aðeins tölur á blaði.

„Þegar þú ert ungur er fyrsta milljónin sem þú vinnur þér inn merkileg, en eftir það hafa tölurnar litla þýðingu,“ sagði Dangote sem hefur hagnast á margskonar fyrirtækjarekstri í ólíkum geirum, allt frá sementsiðnaði til hveitiframleiðslu. 

„Dag einn tók ég út tíu milljónir, setti þær í skottið á bílnum mínum og keyrði með þær heim. Ég horfði síðan á milljónirnar og hugsaði „nú trúi ég því að ég eigi peninga,“ og fór síðan aftur með peningana í bankann daginn eftir,“ sagði hann. 

Á alvarlegri nótum sagði Dangote að tveir geirar væru sérstaklega lofandi fyrir Afríku þessi árin, annars vegar landbúnaður og hinsvegar nýsköpun á sviði tæknigeirans. Hann ráðlagði ungum afrískum frumkvöðlum að láta fyrstu merki um árangur ekki stíga sér til höfuðs. „Í Afríku höfum við oft tilhneigingu til að eyða framtíðartekjum okkar. Það eru samt sveiflur í þessu, upp og niður,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert