Hald lagt á metmagn af kókaíni

Spænskir tollgæslumenn skoða hér smyglsendingu á 2.500 kg af kókaíni.
Spænskir tollgæslumenn skoða hér smyglsendingu á 2.500 kg af kókaíni. AFP

Löggæsluyfirvöld í Evrópusambandinu hafa aldrei lagt hald á meira magn af kókaíni en árið 2017. Lyfjastofnun Evrópu greinir frá þessu í skýrslu sem birt var í dag. Þar er þó einnig vakin athygli á aukinni notkun tilbúinna fíkniefna og notkun snjallsíma til fíkniefnasölu.

Fram kemur í skýrslunni að fíkniefni séu nú í vaxandi mæli seld á samfélagsmiðlum, dulnetinu og í sérstökum kókaín-„hringimiðstöðvum“, þar sem fíkniefnasalar bregðist skjótt við netpöntunum. Þetta geti leitt til eins konar „Uber-menningar“ í fíkniefnasölu og er þar vísað til Uber-skutlþjónustunnar.

„Áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir er að magn fíkniefna heldur áfram að aukast,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Alexis Goosdeel, yfirmanni fíkniefnaeftirlitsstofnunar Evrópusambandsins (EMCDDA).

„Ekki eingöngu eru merki um að fíkniefni sem unnin eru úr plöntum, á borð við kókaín, séu nú fáanleg í æ meira mæli, heldur fer líka vægi tilbúinna fíkniefna og fíknefnaframleiðsla innan Evrópu vaxandi.“

Ríki ESB lögðu hald á 140 tonn af kókaíni árið 2017 og er það mesta magn sem nokkurn tímann hefur verið lagt hald á innan sambandsins. Þar af lögðu belgísk yfirvöld hald á mesta magnið eða 45 tonn, en í öðru sæti voru spænsk yfirvöld með 41 tonn.

Aukning á notkun skipagáma við fíkniefnasmygl er þá „veruleg áskorun“ að því er fram kemur í skýrslunni, sem og sala fíkniefna á samfélagsmiðlum, dulnetinu og með dulkóðunartækni.

Kannabisefni eru þá þrír fjórðu hlutar allra þeirra fíkniefna sem hald var lagt á innan ríkja ESB árið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert