Þingkonur fá ekki að koma til Ísraels

Þingkonurnar Ilhan Abdullahi Omar og Rashida Tlaib.
Þingkonurnar Ilhan Abdullahi Omar og Rashida Tlaib. AFP

Stjórnvöld í Ísrael tilkynntu í dag að tveimur þingkonum í fulltrúadeild Bandaríkjaþings yrði bannað að koma til landsins vegna stuðnings þeirra við að Ísraelar væru beittir viðskiptaþvingunum vegna deilu þeirra við Palestínumenn.

Fram kemur í frétt AFP að ákvörðunin væri í samræmi við hvatningu frá Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Innanríkisráðuneyti Ísraels sagði ákvörðunina varðandi þingkonurnar tvær, Ilhan Omar og Rashida Tlaib, sem báðar eru múslimar, vera í samræmi við lög sem heimiluðu ekki erlendum ríkisborgurum sem styddu viðskiptaþvinganir gegn Ísrael að koma til landsins.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði í yfirlýsingu að landið væri lýðræðisríki og ekki yfir gagnrýni háð. Hins vegar væru lög landsins á þann veg líkt og víða annars staðar að fólki sem vildi skaða ríkið væri óheimilt að koma til þess.

Fær hugsanlega að heimsækja ættingja sína

Til stóð að Omar og Tlaib kæmu til Ísraels um næstu helgi í þeim tilgangi að heimsækja svæði Palestínumanna. Ísraelskir embættismenn hafa sagt að til greina kæmi að leyfa Tlaib, sem er af palestínskum uppruna, að heimsækja fjölskyldumeðlimi af mannúðarástæðum ef hún óskaði eftir því.

Palestínskir embættismenn hafa sagt ákvörðun Ísraels fjandsamlega í garð bandarísku þjóðarinnar og fulltrúa hennar sem og gagnvart rétti Palestínumanna til þess að eiga í samskiptum við umheiminn. Samtök gyðinga í Bandaríkjunum hafa einnig gagnrýnt ákvörðunina. Öllum ætti að vera heimilt að heimsækja lýðræðisríkið Ísrael.

Þingkonurnar hafa brugðist við ákvörðun Ísraels með þeim orðum að hún væri „óhugnanleg“ og að það væri móðgun við lýðræðisleg gildi að neita sitjandi þingmanni fulltrúardeildar Bandaríkjaþings að koma til landsins.

Þá hafa aðrir þingmenn úr röðum Demókrataflokksins harðlega gagnrýnt ákvörðun Ísraels. Þó þeir deildu ekki gagnrýni þingkvennanna á landið teldu þeir út í hött að banna þingkonum frá ríki sem væri bandamaður Ísraels að koma til landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert