Íransstjórn gæti hafa myrt yfir þúsund manns

Frá mótmælum í Teheran, höfuðborg Írans, 16. nóvember síðastliðinn. Íbúar …
Frá mótmælum í Teheran, höfuðborg Írans, 16. nóvember síðastliðinn. Íbúar víða um landið þustu út á götur og mótmæltu skyndilegri hækkun á bensínsverði. AFP

Brian Hook, æðsti erindreki Bandaríkjanna í málefnum Írans, segir að klerkastjórnin í Teheran „gæti hafa myrt yfir þúsund“ manns frá því að mótmæli spruttu upp í ríkinu um miðjan síðasta mánuð. „Við getum ekki verið viss, þar sem ríkisstjórnin veitir engar upplýsingar,“ er haft eftir Hook í frétt AFP um málið í dag. Hann sagði Bandaríkin þó vita fyrir víst að „mörghundruð“ mótmælendur hefðu verið felldir í aðgerðum yfirvalda.

Íran hefur ekki gefið út neinar opinberar upplýsingar um það hversu margir létu lífið í harkalegum aðgerðum stjórnvalda gegn mótmælendum um miðjan nóvember, en nýjustu tölur mannréttindasamtakanna Amnesty International segja að 208 mótmælendur hafi farist, mörgþúsund særst og að minnsta kosti 7.000 verið handtekin.

Amnesty segir að tala látinn gæti verið enn hærri, en hafa sett tölur sínar fram af varfærni, þar sem erfitt er að fá upplýsingar um mannfall dagana eftir mótmælin staðfestar.

Íransstjórn hefur einungis staðfest að einn óbreyttur borgari hafi látist, auk fjögurra hermanna og vísað fregnum um að hundruð hafi látið lífið algjörlega á bug sem helberum lygum.

Hook sagði í dag að bandarísk yfirvöld hefðu fengið myndskeið eða myndir frá mótmælunum frá yfir 32.000 einstaklingum og væri meðal annars að byggja mat sitt á fjölda látinna á því sem þar kemur fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert