Vita ekki hvort þetta séu eitranir eða móðursýki

Æðstiklerkur Ali Khamenei.
Æðstiklerkur Ali Khamenei. AFP

Æðstiklerkur Íran hefur nú tjáð sig opinberlega í fyrsta sinn um meintar eitranir skólastúlkna víða í landinu. Hundruð stúlkna eru sagðar hafa verið meðhöndlaðar vegna eitrana og margir áhyggjufullir foreldrar halda dætrum sínum heima á meðan óvissa ríkir. Handtökur hafa verið framkvæmdar vegna málsins.

Guardian greinir frá því að engar skotheldar sannanir séu fyrir eitrunum en bent er á að upplýsingaflæði frá landinu hafi verið verulega heft eftir mótmæli síðustu mánaða.

Mótmæli hófust í september í kjölfar andláts ungrar stúlku að nafni Mahsa Jina Amini. Amini lést aðeins 22 ára gömul í haldi siðgæðislögreglunnar í Íran. Hún var hand­tek­in vegna þess að hún þótti ekki bera höfuðklút sinn á viðeig­andi máta.

Einhverjir hafa sagt meintu eitranirnar vera svar frá þeim sem líkar illa við uppreisn ungra kvenna í landinu.

Fórnarlömb meintra eitrana hafa verið send á sjúkrahús víða um landið með einkenni eitrunar. AP greinir frá því að sú staðreynd að fórnarlömb lýsi því að finna sérkennilega lykt áður en að einkenni eitrunar fari að gera vart við sig ýti undir þær kenningar að um eitranir sé að ræða.

Því hefur verið velt upp að „eitrunarfaraldurinn“ sé geðræns eðlis fremur en annað þar sem að engar haldbærar sannanir fyrir eitrunum hafi fundist. Að einhverskonar móðursýki hafi nú gripið um sig í landinu vegna atvikanna.

Guardian segir breska sérfræðinga ekki hafa getað útilokað að um eitranir væri að ræða en möguleikann á því að einkennin hefðu sér tilfinningalega skýringu væri heldur ekki hægt að útiloka.

Ali Khamenei, æðstiklerkur Íran hefur hvatt lögregluyfirvöld til þess að rannsaka eitranirnar. Þá sagði hann þær vera ófyrirgefanlegan stórglæp sem ætti að bera þunga refsingu.

Greint hefur verið frá því að handtökur hafi verið framkvæmdar vegna rannsóknar málsins. Ekki er vitað um hversu marga einstaklinga er að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert