Rannsaka eitranir gegn írönskum stúlkum

Mótmæli vegna andláts Amini hafa nú geisað í meira en …
Mótmæli vegna andláts Amini hafa nú geisað í meira en fimm mánuði. AFP PHOTO/UGC IMAGE

Írönsk yfirvöld rannsaka nú röð eitrana sem ungar stúlkur í borginni Qom hafa orðið fyrir. Lífræn fosföt eru sögð hafa verið notuð til þess að eitra fyrir stúlkunum, sem allar ganga í skóla í borginni. Stúlkurnar eru ekki sagðar vera í lífshættu en það mun vera auðvelt að meðhöndla eitranir af þessum toga.

Ungar konur hafa verið í brennidepli í Íran síðan í september á síðasta ári vegna mótmælanna sem geisað hafa þar í landi í kjölfar andláts ungrar stúlku að nafni Mahsa Jina Amini. Amini lést aðeins 22 ára gömul í haldi siðgæðislögreglunnar í Íran. Hún var handtekin vegna þess að hún þótti ekki bera höfuðklút sinn á viðeigandi máta.

Andlát Amini hleypti af stað uppreisn ungra kvenna og þeirra stuðningsmanna gegn heftandi lögum þar í landi sem varða meðal annars burð höfuðklúta.

Talið er að eitranirnar sem hafa átt sér stað í Qom og víðar séu svar andstæðinga við mótmælunum. Eitranirnar hafa valdið því að fjöldi stúlkna í Qom hefur haldið sig heima í stað þess að mæta í skóla. Kennari í borginni segir 50 af 250 nemendum hafa mætt í skólann nýlega.

Í umfjöllun sinni ræðir Guardian við lækni sem meðhöndlað hefur stúlkurnar. Segist hann aldrei áður hafa meðhöndlað neinn sem eitrað hafi verið fyrir með þessum hætti. Hann hafi einungis aðstoðað verkamenn sem hafi verið útsettir fyrir efnunum.

Foreldrar stúlkna í Qom hafa mótmælt fyrir utan skrifstofur stjórnvalda í kjölfar eitrananna og hefur nokkrum skólum á svæðinu verið lokað á meðan á rannsókn stendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert