Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóri bifreiðaframleiðandans Nissan, segist hafa skipulagt flóttann úr stofufangelsi í Japan í lok síðasta árs einn og óstuddur. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ghosn.
Ghosn flúði Japan í lok desember en þar hefur hann verið sakaður um stórfelld skattsvik sem hann neitar.
Forstjórinn fyrrverandi flúði með einkaflugvél til Istanbúl í Tyrklandi og þaðan með annarri einkaflugvél til Líbanon hvar hann hefur óskað eftir alþjóðlegri vernd. Ghosn fæddist í Brasilíu en er af líbönskum uppruna og ólst upp í Líbanon. Hann er með brasilískt, líbanskt og franskt ríkisfang en hann framvísaði frönsku vegabréfi við komuna til Líbanon.
Ghosn hefur lýst sig saklausan af þeim ásökunum sem hann stendur frammi fyrir í Japan og hafði lýst því yfir að hann ætlaði að sanna sakleysi sitt fyrir japönskum dómstólum. Lögmenn hans segjast ekkert hafa vitað um flóttann.
Málið þykir hið vandræðalegasta fyrir yfirvöld í Japan og hefur umfangsmikil rannsókn hafist á því hvernig það gat gerst að Ghosn tókst að flýja landið.
„Fjölmiðlar fullyrða að konan mín Carole og aðrir úr fjölskyldunni hafi tekið þátt í skipuleggja brottför mína frá Japan. Það er ekki rétt. Ég skipulagði flóttann sjálfur,“ segir Ghosn í stuttri yfirlýsingu sem send var AFP-fréttastofunni.
Búist er við að farið verði fram á framsal Ghosn frá Líbanon en hins vegar eru taldar litlar líkur á að af því verði þar sem enginn framsalssamningur er í gildi á milli Japans og Líbanon.