Mál Ghosn komið á borð Interpol

Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóri bifreiðaframleiðandans Nissan, er á flótta undan …
Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóri bifreiðaframleiðandans Nissan, er á flótta undan japanskri réttvísi. AFP

Stjórnvöld í Líbanon hafa fengið í hendur ósk frá alþjóðalögreglunni Interpol um að Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóri bifreiðaframleiðandans Nissan sem flúði Japan í lok síðasta árs þar sem hann er sakaður um stórfelld skattsvik, verði handtekinn. Ekki er um að ræða alþjóðlega handtökuskipun heldur svokallaða rauða tilkynningu.

Forstjórinn fyrrverandi flúði úr stofufangelsi í Japan með einkaflugvél til Istanbúl í Tyrklandi og þaðan með annarri einkaflugvél til Líbanon hvar hann hefur óskað eftir alþjóðlegri vernd. Ghosn fæddist í Brasilíu en er af líbönskum uppruna og ólst upp í Líbanon. Hann er með brasilískt, líbanskt og franskt ríkisfang en hann framvísaði frönsku vegabréfi við komuna til Líbanon. Ghosn hefur lýst sig saklausan af þeim ásökunum sem hann stendur frammi fyrir í Japan og hafði lýst því yfir að hann ætlaði að sanna sakleysi sitt fyrir japönskum dómstólum. Lögmenn hans segjast ekkert hafa vitað um flóttann.

Segjast ekki framselja franska ríkisborgara

Talið er ólíklegt að líbönsk stjórnvöld muni framselja Ghosn til Japans komi fram krafa um framsal frá japönskum yfirvöldum þar sem enginn framsalssamningur er í gildi á milli landanna. Frönsk stjórnvöld hafa lýst því yfir að komi Ghosn til Frakklands verði hann ekki framseldur þar sem Frakkar framselji aldrei ríkisborgara sína.

Junichiro Hironaka, lögmaður Carlos Ghosn, segir flóttann hafa komið sér …
Junichiro Hironaka, lögmaður Carlos Ghosn, segir flóttann hafa komið sér í opna skjöldu. AFP

Franskir ráðamenn hafa hins vegar gagnrýnt flótta Ghosns frá Japan og sagt að hann hefði átt að leyfa japönsku réttarkerfi að hafa sinn eðlilega gang. Þrjú vegabréf Ghosns voru í höndum lögmanna hans og það þriðja, viðbótar franskt vegabréf, einnig en svo virðist sem hann hafi komist yfir það og notað til þess að flýja til Líbanons.

Sjö handteknir í Tyrklandi vegna málsins

Tyrknesk yfirvöld hafa handtekið sjö einstaklinga vegna málsins, þar af fjóra flugmenn. Er verið að skoða meðal annars hvernig tekist hefði að flytja Ghosn á milli einkaflugvélanna tveggja á flugvelli í Istanbúl. Ekki er ljóst hvernig Ghosn tókst að flýja úr stofufangelsinu en talið er að flóttinn hafi verið skipulagður vikur eða mánuði.

Málið þykir hið vandræðalegasta fyrir japönsk stjórnvöld og hefur verið kallað eftir því í kjölfarið að reglur verði hertar um einstaklinga sem sitja í varðhaldi samkvæmt frétt AFP. Aðrir segja hins vegar að japanskar reglur í þeim efnum séu þegar of strangar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka