Óprúttinn starfsmaður tyrknesks einkaþotufyrirtækis, MNG jet, hjálpaði Carlos Ghosn, fyrrveranda forstjóra bifreiðaframleiðandans Nissan, að flýja úr stofufangelsi í Japan til Líbanons. Þetta fullyrðir forsvarsmaður fyrirtækisins og segir hann starfsmanninn hafa verið einan að verki.
Ghosn flúði Japan í lok desember en þar hefur hann verið sakaður um stórfelld skattsvik sem hann neitar. Ghosn segist hafa skipulagt flóttann einn og óstuddur.
Forstjórinn fyrrverandi flúði með einkaflugvél til Istanbúl í Tyrklandi og þaðan með annarri einkaflugvél til Líbanons þar sem hann hefur óskað eftir alþjóðlegri vernd.
Starfsmaður MNG jet á að hafa falsað fluggögn og skipulagt útbúið tvo farseðla fyrir Ghosn á mismunandi nöfnum, frá Osaka til Istanbúl og þaðan til Beirút. Ghosn fæddist í Brasilíu en er af líbönskum uppruna og ólst upp í Líbanon. Hann er með brasilískt, líbanskt og franskt ríkisfang en hann framvísaði frönsku vegabréfi við komuna til Líbanons.
Miklar vangaveltur eru uppi um hvernig Ghosn tókst að flýja og útgáfan sem hefur fengið hvað mesta athygli gengur út á að Ghosn hafi falið sig í stórum hljóðfærakassa og aðstoðarmenn hans dulbúið sig sem tónlistarmenn. Japanska fréttastofan NHK sagðist í dag hafa heimildir fyrir því að Ghosn sæist yfirgefa heimili sitt í Tókýó á öryggismyndavélum daginn örlagaríka.
MNG jet hyggst leggja fram kæru á hendur starfsmanninum sökum ólögmætrar notkunar á þjónustu fyrirtækisins.