Tyrknesk yfirvöld gáfu það út í dag að tveir erlendir ríkisborgarar tengdust flótta Carlos Ghosn, en alls hafa fimm verið handteknir í Tyrklandi vegna málsins og tveir til viðbótar yfirheyrðir. Abdulhamit Gul dómsmálaráðherra landsins greindi frá þessu í dag, en varpaði þó ekki nánara ljósi á þátt þessara erlendu ríkisborgara í flótta Nissan-forstjórans fyrrverandi.
Ghosn flaug til Istanbúl í Tyrklandi frá Osaka í Japan og síðan áfram frá Istanbúl til Beirút í Líbanon, þar sem hann dvelur nú og hefur óskað eftir alþjóðlegri vernd. Ghosn var í stofufangelsi í Japan og átti að mæta fyrir dómstóla á þessu ári vegna ásakana um stórfelld skattsvik, sem hann neitar.
Tyrknesk yfirvöld rannsaka það sem gerðist á jörðu niðri á Ataturk-flugvellinum utan við Istanbúl, en þar virðist Ghosn hafa lent í Bombardier-vél sem kom frá Osaka og var svo ekið inn í flugskýli. Fjörutíu og fimm mínútum síðan hélt Bombardier-einkaflugvél af stað frá flugvellinum og þar var Ghosn um borð.
Takashi Takano, lögfræðingur Ghosn, sagði í bloggfærslu í dag að Ghosn hefði svikið hann með því að flýja Japan. Þó segist Takano skilja ákvörðun Ghosn enda sé japanska réttarkerfið ómannúðlegt.
„Ég get auðveldlega ímyndað mér að fólk sem er ríkt, á gott tengslanet og hefur getu til að grípa til sinna aðgerða hefði gert það sama í sporum Ghosn,“ sagði Takano í áðurnefndri bloggfærslu.
Ghosn var handtekinn í nóvember 2018 og gæsluvarðhaldið sem hann sat í við erfiðar aðstæður var almennt álitið harðneskjulegt, miðað við það sem þekkist á Vesturlöndum.
Í Japan er leyfilegt að halda grunuðum einstaklingum vikum og jafnvel mánuðum saman áður en réttarhöld fara fram. Þá er aðgangur þeirra að lögfræðingum takmarkaður og um 99% réttarhalda í Japan enda með sakfellingu.
Flótti Ghosn þykir hið vandræðalegasta mál fyrir yfirvöld í Japan, en þau hafa þó ekki komið á framfæri neinni opinberri beiðni til tyrkneskra yfirvalda um rannsókn á flóttanum, að sögn Gul dómsmálaráðherra.