Flótti Carlos Ghosn „óréttlætanlegur“

Carlos Ghosn er 65 ára gamall og ásakaður um stórfelld …
Carlos Ghosn er 65 ára gamall og ásakaður um stórfelld skattsvik. AFP

Flótti Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóra Nissan, er „óréttlætanlegur“ og er hann talinn hafa yfirgefið landið með „ólöglegum aðferðum“, að sögn dómsmálaráðherra Japans í dag, en þetta er í fyrsta sinn sem japönsk stjórnvöld tjá sig um málið.

Ghosn flúði frá Japan þar sem hans biðu réttarhöld vegna stórfelldra skattsvika sem hann neitar að hafa framið. Ghosn flúði til Líbanon, hvar hann ólst upp, með viðkomu í Istanbúl. Japanska réttarkerfið hefur legið undir harðri gagnrýni á alþjóðavísu eftir flótta Ghosn en réttarkerfið er sagt ómannúðlegt. 

„Réttarkerfi Japans setur fram viðeigandi málsmeðferð sem beinist  að því að skýra frá sannleikanum. Því er stjórnað á viðeigandi hátt og grundvallarmannréttindi einstaklinga eru virt. Flótti sakbornings sem bíður réttarhalda er óréttlætanlegur,“ sagði Masako Mori, dómsmálaráðherra Japans, í dag. 

Masako Mori, dómsmálaráðherra Japans.
Masako Mori, dómsmálaráðherra Japans. AFP

Hefði átt að vera í varðhaldi

„Ljóst er að við vissum ekki af því að Ghosn ætlaði að flýja Japan. Talið er að hann hafi gripið til ólöglegra aðferða til að yfirgefa landið. Það er afar miður að þessi staða sé komin upp,“ bætti Mori við. 

For­stjór­inn fyrr­ver­andi, sem fædd­ist í Bras­il­íu en er af líb­önsk­um upp­runa, er með bras­il­ískt, líb­anskt og franskt rík­is­fang. Hann hef­ur sótt um alþjóðlega vernd í Líb­anon hvar hann nýt­ur mik­ill­ar hylli.

Lýst hefur verið eftir Ghosn hjá Interpol og rauð aðvörun hefur verið gefin út vegna flótta hans. 

Skrifstofa opinbers saksóknara í Japan gaf nýverið út að flótti Ghosn væri glæpur og Ghosn hafi vísvitandi flúið dómsmeðferð í landinu. Flótti hans, sem átti sér stað rétt fyrir áramót, staðfestir röksemdir saksóknara um að Ghosn hefði átt að vera í gæsluvarðhaldi þar sem hann „hafði mikinn fjárhagslegan kraft og víðtæk tengsl erlendis. Það var auðvelt fyrir hann að flýja.“

Sannfærði dómara um að hann myndi ekki flýja

Ghosn var leystur úr haldi vegna þess að hann greiddi tryggingu og var því einungis í stofufangelsi, meira og minna frá því að hann var handtekinn árið 2018.

Vistarverur Ghosn í Tókýó, höfuðborg Japans.
Vistarverur Ghosn í Tókýó, höfuðborg Japans. AFP

Að sögn saksóknara hafði Ghosn sömuleiðis veruleg áhrif innan Japan og raunveruleg hætta væri á  að hann myndi eyða sönnunargögnum sem tengjast málinu. Ghosn var ekki hnepptur í varðhald þar sem hann sannfærði dómara um að hann myndi ekki reyna að flýja. 

Eins og áður segir hefur réttarkerfi Japans verið í sviðsljósinu frá hvarfi Ghosn. Í Jap­an er leyfi­legt að halda grunuðum ein­stak­ling­um vik­um og jafn­vel mánuðum sam­an áður en rétt­ar­höld fara fram. Þá er aðgang­ur þeirra að lög­fræðing­um tak­markaður og um 99% rétt­ar­halda í Jap­an enda með sak­fell­ingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka