Fyrrverandi forstjóri Nissan, Carlos Ghosn, flúði með hraðlest en hann var laus gegn tryggingu og í farbanni á þeim tíma. Dómsmálaráðherra Japans hefur heitið því að eftirlit verði hert á landamærum í kjölfarið.
Ghosn er sakaður um skattsvik, að hafa ekki gefið réttar upplýsingar um laun sín og fyrir að hafa notað eignir fyrirtækisins til persónulegra nota utan vinnutíma.
Ghosn, sem er 65 ára gamall, hefur verið ákærður fyrir margvísleg efnahagsbrot í Japan en hann neitar sök. Japönsk yfirvöld segja að flóttinn sé til rannsóknar en lítið hefur verið gefið upp um hvernig honum tókst að komast úr landi.
Nippon-sjónvarpsstöðin greindi frá því í dag að Ghosn hafi komið um borð í hraðlest (shinkansen) á Shinagawa-lestarstöðinni í Tókýó 29. desember. Hann hafi farið úr lestinni í Osaka um klukkan 19:30 og farið með leigubíl á hótel skammt frá Kansai-flugvellinum.
Talið er að hann hafi farið með einkaflugvél frá flugvellinum þann sama dag til Istanbul. Þar skipti hann um flugvél og flaug áfram til Beirút í Líbanon.
Í síðustu viku var greint frá því að Ghosn hafi sést á öryggismyndavélum fara af heimili sínu í Tókýó um hádegisbil 29. desember.
Á blaðamannafundi í dag greindi dómsmálaráðherra Japans, Masako Mori, frá því að hann teldi að Ghosn hafi beitt ólöglegum aðferðum við að komast úr landi og hann hafi óskað eftir því að eftirlit yrði hert á flugvöllum landsins.
Wall Street Journal greinir frá því að Ghosn hafi komið um borð í flugvél í Osaka í stóru boxi ætluðu fyrir hljóðbúnað en boxið fannst síðar um borð í vélinni. Heimildir WSJ herma að borað hafi verið gat á botn boxins svo Ghosn gæti andað.
Samkvæmt upplýsingum frá samgönguráðuneyti Japans er ekki leitað sérstaklega í farangri sem fer um borð í einkaflugvélar.
Ghosn, sem er með franskt, brasilískt og líbanskt ríkisfang kom til Líbanon á frönsku vegabréfi. Dómstóll í Tókýó hafði heimilað Ghosn að halda franska vegabréfinu en hann þyrfti að ferðast innanlands í Japan. Ghosn hefur ýjað að því að hann muni segja sögu sína á blaðamannafundi síðar í vikunni í Beirút.
Ghosn var upphaflega handtekinn 19. nóvember 2018 og ákærður fyrir fjármálamisferli. Þann 6. mars var honum sleppt gegn tryggingu en handtekinn aftur í byrjun apríl vegna nýrra saka. Hann var fljótlega eftir það látinn laus gegn tryggingu og hefur setið í stofufangelsi frá þeim tíma.