Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóri bifreiðaframleiðandans Nissan, segir að japanskir saksóknarar hafi verið bæði hrottafengnir og miskunnarlausir við sig og hótað aðgerðum gegn fjölskyldu hans ef hann myndi ekki gangast við ásökunum þeirra. Þetta sagði hann á fréttamannafundi í Beirút í Líbanon, en þangað flúði hann í lok desember eftir að hafa verið sakaður um stórfelld skattsvik sem hann neitar.
Ghosn kom fram opinberlega í fyrsta skiptið á fundinum síðan hann flúði Japan, en hann hafði verið laus gegn tryggingu. Sagði Ghosn á fundinum að hann væri þar til að hreinsa nafn sitt og að ásakanirnar gegn honum væru haldlausar.
Yfirvöld í Tyrklandi og Japan rannsaka nú hvernig Ghosn komst frá Japan, en Interpol hefur lýst eftir honum og farið fram á að hann verði handtekinn. Þá hefur handtökuskipun einnig verið gefin út á hendur Carole Ghosn, eiginkonu Carlos.
Forstjórinn fyrrverandi flúði með einkaflugvél til Istanbúl í Tyrklandi og þaðan með annarri einkaflugvél til Líbanon hvar hann hefur óskað eftir alþjóðlegri vernd. Ghosn fæddist í Brasilíu en er af líbönskum uppruna og ólst upp í Líbanon. Hann er með brasilískt, líbanskt og franskt ríkisfang en hann framvísaði frönsku vegabréfi við komuna til Líbanon.
Búist er við að farið verði fram á framsal Ghosn frá Líbanon en hins vegar eru taldar litlar líkur á að af því verði þar sem enginn framsalssamningur er í gildi á milli Japans og Líbanon.