„Hefur þú einhvern tímann verið í kassa?“

Flúði Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóri Nissan, frá Japan til Líbanon …
Flúði Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóri Nissan, frá Japan til Líbanon í kassa? Hann útilokaði það að minnsta kosti ekki í viðtali við fréttamann BBC. AFP

Flótti Carlos Ghosn, fyrr­ver­andi for­stjóra bif­reiðafram­leiðand­ans Nis­s­an, frá Japan til Líbanon í lok síðasta árs er hulin ráðgáta en John Simpson, fréttamaður BBC, gerði heiðarlega tilraun til að komast að sannleikanum. 

„Þetta hlýtur að hafa verið óþægileg reynsla, er það ekki?“ spurði Simpson, sem fékk viðtal við Ghosn eftir að hann kom fram op­in­ber­lega í fyrsta skiptið á blaðamannafundi í fyrradag eftir flóttann frá Japan. 

„Ég veit það ekki, þú ættir að spyrja einhvern annan. Hefur þú einhvern tímann verið í kassa?“ spurði Ghosn á móti.  

Wall Street Journal hefur greint frá því að Ghosn hafi komið um borð í flug­vél í Osaka í stóru boxi ætluðu fyr­ir hljóðbúnað en boxið fannst síðar um borð í vél­inni. Heim­ild­ir WSJ herma að borað hafi verið gat á botn box­ins svo Ghosn gæti andað.

„Þú hefur verið í kassa, segðu mér frá því,“ hélt Simpson áfram. „Nú, það er það sem þú heldur,“ svaraði Ghosn og brosti út í annað. „Svona nú…,“ voru svör fréttamannsins. Ghosn vildi ekki staðfesta neitt en segist hafa verið tilbúinn að taka áhættu. 

Hamingjusamari en fyrir ári

Ghosn er sakaður um skattsvik, að hafa ekki gefið rétt­ar upp­lýs­ing­ar um laun sín og fyr­ir að hafa notað eign­ir fyr­ir­tæk­is­ins til per­sónu­legra nota utan vinnu­tíma. Hann var upp­haf­lega hand­tek­inn í Tókýó 19. nóv­em­ber 2018 og ákærður fyr­ir fjár­mála­m­is­ferli. Þann 6. mars var hon­um sleppt gegn trygg­ingu en hand­tek­inn aft­ur í byrj­un apríl vegna nýrra saka. Hann var fljót­lega eft­ir það lát­inn laus gegn trygg­ingu og hef­ur setið í stofufang­elsi frá þeim tíma.

Aðspurður hvort hann sé hamingjusamur maður í dag svaraði Ghosn: „Ég er ekki viss um hvort ég sé hamingjusamur en ég er hamingjusamari en ég var fyrir ári.“

„Mér er frjálst að hitta fjölskyldu mína, mér er frjálst að hitta eiginkonu mína og búa með eiginkonu minni. Þetta var mér meinað þegar ég var í Japan,“ sagði Ghosn.

Yf­ir­völd í Tyrklandi og Jap­an rann­saka nú hvernig Ghosn komst frá Jap­an, en In­terpol hef­ur lýst eft­ir hon­um og farið fram á að hann verði hand­tek­inn. Þá hef­ur hand­töku­skip­un einnig verið gef­in út á hend­ur Carole Ghosn, eig­in­konu Car­los.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert