Æðstiklerkur Írans vottar samúð

AFP

Æðstiklerkur Írans, Ali Khamenei, fyrirskipaði að upplýst yrði um málið opinberlega eftir að honum var tjáð að úkraínska farþegaþotan hefði verið skotin niður. Þetta kemur fram í frétt Fars-fréttastofunnar.

Segir í fréttinni að Khamenei hafi jafnframt fyrirskipað hernum að farið verði yfir alla vankanta svo að tryggt verði að þetta muni aldrei endurtaka sig. Hann hefur sent fjölskyldum þeirra sem fórust samúðarkveðjur og mun ræða við forseta Úkraínu um framhaldið en hann hefur lýst því yfir að írönsk yfirvöld verði að gera hreint fyrir sínum dyrum og greiða miskabætur.

Æðstiklerkur Írans, Ali Khamenei.
Æðstiklerkur Írans, Ali Khamenei. AFP

Greint var frá því í nótt að herinn hefði óvart skotið niður úkraínsku farþegaþot­una en með henni fór­ust all­ir um borð, 176 manns. Þetta kem­ur fram í frétt ír­anska rík­is­sjón­varps­ins.

Í yf­ir­lýs­ingu frá stjórn­völd­um kem­ur fram að þetta hafi verið mann­leg mis­tök eft­ir að farþegaþotan flaug ná­lægt viðkvæm­um stöðum sem til­heyra ír­önsku bylt­ing­ar­vörðunum. Fyr­ir mis­tök hafi verið talið að um óvin­veitt skot­mark væri að ræða og því hafi farþegaþot­unni verið grandað með flug­skeyti. Þeir sem bera ábyrgð á þess­um mis­tök­um verði látn­ir gjalda þess.

Yfirmaður lofthelgi Írans, Amirali Hajizadeh, herforingi í byltingarvörðum Írans, segist bera fulla ábyrgð á að farþegaþotan hafi verið skotin niður og hann muni samþykkja hvaða ákvörðun sem tekin verður um framtíð hans. „Ég myndi frekar vilja deyja en verða vitni að atviki sem þessu,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert