Íranskir mótmælendur kveiktu í breska ríkisfánanum fyrir utan breska sendiráðið í Teheran í dag, en sendiherra Bretlands í Teheran var handtekinn tímabundið í gær.
Um 200 mótmælendur söfnuðust saman fyrir utan breska sendiráðið í dag og hrópuðu „dauði Bretlands“.
Sendiherra Bretlands, Rob Macaire, var viðstaddur minningarathöfn um þá sem létust þegar úkraínska farþegaþotan var skotin niður. Fljótlega brutust út mótmæli á minningarathöfninni og segist Macaire þá hafa yfirgefið svæðið. Hann var svo handtekinn skömmu síðar en sleppt fljótlega eftir það.
Að sögn aðstoðarutanríkisráðherra Írans, Seyed Abbas Araghchi, var Macaire handtekinn sem óþekktur útlendingur á ólöglegri samkomu. Eftir að í ljós kom hver væri á ferðinni var honum sleppt.
Írönsk stjórnvöld boðuðu svo Macaire á sinn fund í dag og kvörtuðu undan „óhefðbundinni hegðun hans að mæta á ólöglegan fund“.
Fjölmargir háskólanemar hafa forðast að ganga yfir fána Ísraels og Bandaríkjanna sem málaðir eru á götu Tehran, en svo virðist sem það sé gert til að sýna mótstöðu gegn stjórnvöldum í Íran.
Á myndskeiðum má sjá nemendurna ganga fram hjá, í stað þess að ganga yfir fánana, sem málaðir eru á götu á háskólasvæði Shadid Beheshti-háskólans. Fánarnir voru málaðir á göturnar svo að þeir sem gengju um þær myndu móðga bæði löndin sem eru talin vera óvinir Írans.
Þúsundir mótmælenda hafa hrópað slagorð gegn írönskum stjórnvöldum á götum Teheran eftir að yfirvöld játuðu að hafa fyrir slysni skotið niður úkraínska farþegaflugvél í síðustu viku.