Spánn og Ítalía veita Bandaríkjunum von

Veiran hefur breiðst hratt út í Bandaríkjunum síðustu vikur, ekki …
Veiran hefur breiðst hratt út í Bandaríkjunum síðustu vikur, ekki síst í New York. Í gær var hins vegar fyrsti dagurinn þar sem smitum og dauðsföllum milli daga fækkaði í ríkinu. AFP

Staðan á Ítalíu og Spáni, þar sem dauðsföllum og nýsmitum kórónuveirunnar hefur farið fækkandi síðustu þrjá daga, gefur Bandaríkjunum von um að bjartari tímar séu fram undan. Þetta segir Debora Birx, yf­ir­maður viðbragðsteym­is Bandaríkjastjórnar vegna kór­ónu­veirunn­ar.

Veiran hefur breiðst hratt út í Bandaríkjunum síðustu vikur, ekki síst í New York. Í gær var hins vegar fyrsti dagurinn þar sem smitum og dauðsföllum milli daga fækkaði í ríkinu. 

Ljóst er að enn er þó langt í land og Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti sagði á blaðamanna­fundi um helgina að fram und­an væru mörg dauðsföll vegna kór­ónu­veirunn­ar.

„Við erum vongóð um að í þessari viku takist að skapa stöðugleika tilfella á þéttbýlum svæðum þar sem faraldurinn náði útbreiðslu fyrir nokkrum vikum,“ segir Birx. 

Debora Birx, yf­ir­maður viðbragðsteym­is Bandaríkjastjórnar vegna kór­ónu­veirunn­ar.
Debora Birx, yf­ir­maður viðbragðsteym­is Bandaríkjastjórnar vegna kór­ónu­veirunn­ar. AFP

337.274 tilfelli kórónuveirunnar hafa greinst í Bandaríkjunum, flest allra í heiminum. Næst á eftir kemur Spánn þar sem staðfest tilfelli eru 131.646. 

Líkt og áður segir fer dauðsföllum milli daga fækkandi á Spáni og það sama á við um Ítalíu. Í gær  fækkaði dauðsföll­um á Spáni af völd­um kór­ónu­veirunn­ar þriðja daginn í röð og á Ítal­íu hafa ekki jafn fáir lát­ist á ein­um sól­ar­hring í meira en tvær vik­ur. Á Ítal­íu hef­ur jafn­framt sjúk­ling­um á gjör­gæslu­deild­um lands­ins fækkað ann­an dag­inn í röð. Dauðsföll af völdum veirunnar eru engu að síður hvergi fleiri en á Ítalíu, eða 15.887. Í Bandaríkjunum eru dauðsföllin orðin 9.648.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert