Bandarískir feðgar hafa verið handteknir, grunaðir um að hafa aðstoðað Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóra bílaframleiðandans Nissan, að flýja úr stofufangelsi í Tókýó í Japan til Beirút í Líbanon í lok síðasta árs.
Ghosn er sakaður um skattsvik, að hafa ekki gefið réttar upplýsingar um laun sín og fyrir að hafa notað eignir fyrirtækisins til persónulegra nota utan vinnutíma. Hann var upphaflega handtekinn í Tókýó 19. nóvember 2018 og ákærður fyrir fjármálamisferli. Þann 6. mars í fyrra var honum sleppt gegn tryggingu en handtekinn aftur í byrjun apríl vegna nýrra saka. Hann var fljótlega eftir það látinn laus gegn tryggingu og sat í stofufangelsi frá þeim tíma, allt þar til hann flúði til Líbanon í lok síðasta árs.
Flóttinn er hulin ráðgáta en Wall Street Journal segist hafa heimildir fyrir því að Ghosn hafi komið um borð í flugvél í Osaka í stóru boxi ætluðu fyrir hljóðbúnað en boxið fannst síðar um borð í vélinni.
Michael Taylor og sonur hans, Peter Taylor, voru handteknir í Bandaríkjunum og gert að koma fyrir alríkisdómara í Massachusetts í kvöld gegnum fjarfundabúnað.
Michael Taylor er fyrrverandi liðsmaður sérsveitar bandaríska hersins en hefur sinnt öryggisvörslu síðustu ár.