Bjargað úr húsarústum 65 tímum eftir skjálftann

Elif Perincek er þriggja ára gömul en henni var bjargað …
Elif Perincek er þriggja ára gömul en henni var bjargað úr húsarústunum í morgun. AFP

Tveimur börnum var bjargað úr húsarústum í tyrkneska strandbænum Bayrakli í Ismír-héraði í dag, tæpum þremur sólarhringum eftir að harður jarðskjálfti reið yfir Eyjahaf. Vitað er að 85 létust í skjálftanum sem mældist sjö stig og reið yfir Tyrkland og Grikkland á föstudag.

AFP

Almannavarnadeild Tyrklands, AFAD, greindi frá björgun barnanna í dag og hafa verið birtar myndir í tyrkneskum fjölmiðlum þar sem lítil stúlka, vafin í álteppi, er flutt í skjól við gríðarleg fagnaðarlæti björgunarfólks. Stúlkunni, Elif Perincek, þriggja ára, var bjargað heilli á húfi 65 klukkustundum eftir skjálftann. „Ég er svo hamingjusöm, Guð blessi þig. Við Elif erum sameinaðar að nýju,“ hefur ríkissjónvarpsstöðin TRT eftir ömmu stúlkunnar.

Samsett mynd af björgun Elif Perincek og mömmu hennar, Sefer …
Samsett mynd af björgun Elif Perincek og mömmu hennar, Sefer Perincek. AFP

Elif er 106. manneskjan sem bjargað er á lífi úr húsarústum í Bayrakli. Þeirra á meðal er móðir Elif og þrjú systkini hennar. Bróðir hennar, sem hafði verið bjargað, lést síðar á sjúkrahúsi.

Samkvæmt upplýsingum frá AFAD var 14 ára gamalli stúlku, Idil Sirin, einnig bjargað úr húsarústum í Bayakli, 58 tímum eftir jarðskjálftann. En gleði fjölskyldunnar var skammvinn því skömmu síðar fannst systir hennar, Ipek, látin í rústunum. „Ég heyri ekkert hljóð frá systur minni. Hún er látin,“ sagði Idil þegar verið var að draga hana út úr rústunum. 

AFP

Umhverfisráðherra Tyrklands segir að staðfest andlát þar séu 83 og tæplega eitt þúsund séu slasaðir. Af þeim eru yfir 200 enn á sjúkrahúsi. Tveir unglingar létust á grísku eyjunni Samos, skammt frá upptökum skjálftans.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert