„Kraftaverk á 91. stundu“

Fjögurra ára gamalli stúlku var bjargað út úr húsarústum í borginni Ízmir í morgun, 91 klukkustund eftir að harður jarðskjálfti reið yfir Eyjahaf. Yfir 100 hafa fundist látnir eftir skjálftann, langflestir í Tyrklandi en tveir unglingar létust á grísku eyjunni Samos. Jarðskjálftinn var 7 stig og olli gríðarlegum skemmdum, ekki síst í Ízmir-héraði.

Ayda Gezgin fannst á lífi í morgun.
Ayda Gezgin fannst á lífi í morgun. AFP

„Við höfum orðið vitni að kraftaverki á 91. stundu,“ segir borgarstjórinn í Ízmir, Tunc Soyer, á Twitter. „Björgunarsveitir hafa bjargað Ayda, fjögurra ára gamalli stúlku, á lífi úr rústunum. Á sama tíma og við höfum upplifað gríðarlegan sársauka þá fögnum við.“

Tæplega þúsund slösuðust í jarðskjálftanum og af þeim eru 147 enn á sjúkrahúsi. Björgunarsveitir eru á vöktum allan sólarhringinn við leit í fimm byggingum sem hrundu í Ízmir-héraði. Ekki er vitað hversu margra er saknað. 

Björgunarsveitarmenn bera Ayda Gezgin, fjögurra ára, að sjúkrabíl en hún …
Björgunarsveitarmenn bera Ayda Gezgin, fjögurra ára, að sjúkrabíl en hún fannst í rústunum snemma í morgun. AFP

Strandbærinn Bayrakli í Ízmir er sá sem varð verst úti í jarðskjálftanum en þar fundust tvær stúlkur á lífi í rústunum í gær. Báðar misstu systkini í hamförunum.

AFP
Elif Perincek er þriggja ára gömul. Henni var bjargað úr …
Elif Perincek er þriggja ára gömul. Henni var bjargað úr húsarústum í gærmorgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert