Þúsundir mótmæla í Póllandi

Donald Tusk, fyrrum for­seti leiðtogaráðs Evrópusambandsins hefur boðað til mótmæla …
Donald Tusk, fyrrum for­seti leiðtogaráðs Evrópusambandsins hefur boðað til mótmæla vegna yfirvofandi útgöngu Póllands úr sambandinu. AFP

Búist er við því að þúsundir muni mótmæla úrskurði tímamótadóms sem æðsti dómstóll Póllands kvað upp gegn forgangi laga ESB í síðustu viku.

Donald Tusk, fyrrum forseti leiðtogaráðs ESB, sem nú er einn helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar boðaði til mótmælanna en hann hefur áður varað við útgöngu Póllands úr ESB,.

Eftir að úrskurðurinn hlaut mikla gagnrýni bæði í Póllandi og víða annarsstaðar í Evrópusambandinu bað Donald fólk um að „verja evrópskt Pólland“.

„Við verðum að bjarga Póllandi. Það mun enginn gera það fyrir okkur,“ sagði hann í Twitter-færslu á föstudaginn síðastliðinn.

Mótmælin hefjast kl. 16:00 í dag á staðartíma.

Eftir fall kommúnistastjórnarinnar 1989 gekk Pólland í ESB árið 2004 ásamt nokkrum ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu.

Skoðanakannanir sýna að aðild að Evrópusambandinu hljóti enn mikinn meðbyr meðal íbúa. Samskipti Varsjár og Brussel hafa þó stirðnað síðan þjóðernissinnaði hægri flokkurinn Lög og réttur komst til valda árið 2015.

Bitbeinið í deilunni eru umfangsmiklar umbætur á dómskerfinu sem flokkurinn óskar eftir, sem ESB óttast að muni grafa undan sjálfstæði dómstóla og lýðræðislegu frelsi.

Nýjasta vendingin í langvinnri deilunni var úrskurður stjórnlagadómstólsins frá því á fimmtudag, stofnun sem stjórnarandstæðingar segja samanstanda af bandamönnum flokksins Lög og réttur og því ólögmæt.

Ríkisstjórnin útilokar útgöngu Póllands úr ESB

Úrskurðurinn mótmælti forgangi laga ESB um pólsk lög í öllum tilvikum undir þeim formerkjum að helstu greinar í ESB-sáttmálunum samræmdust ekki pólsku stjórnarskránni.

Einnig varaði dómstóllinn stofnanir ESB við því að „athafna sig utan gildissviðs þeirra“ með því að hafa afskipti af umbótum í dómsmálum Póllands.

Brussel hafði áður varað við því að málið gæti haft áhrif á styrki og ódýr lán frá ESB til Póllands vegna heimsfaraldursins.

Sérfræðingar hafa lýst úrskurðinum sem „lagalegt Polexit“ og sagt hann geta rutt brautina fyrir útgöngu Póllands úr Evrópusambandinu einn daginn.

Ríkisstjórnin hefur hins vegar útilokað þann möguleika.

Degi eftir að úrskurðurinn féll sagði Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra inngöngu Póllands í ESB árið 2004 hafa verið „einn af hápunktum síðustu áratuga“, bæði fyrir Pólland og sambandið sjálft.

„Pólland er og verður áfram í fjölskyldu Evrópuþjóða,“ segir hann í Facebook- færslu í gær.

Vilja að réttindi sín séu virt

Mateusz segir meginreglu um yfirburði stjórnskipunarréttar umfram lög ESB þegar hafa verið setta fram af dómstólum í öðrum aðildarríkjum ESB.

„Við höfum sömu réttindi og önnur lönd. Við viljum að þessi réttindi séu virt. Við erum ekki óboðinn gestur í Evrópusambandinu og þess vegna erum við ekki sammála því að komið sé fram við okkur sem annars flokks land.“

Til þess að ákvörðunin hafi lagalegt gildi þarf ríkisstjórnin að birta úrskurðinn opinberlega.

Stíga þurfi þó varlega til jarðar í þessum efnum til að ákvörðunin hafi ekki neikvæð áhrif á fjármögnun frá ESB og til að koma í veg fyrir hugsanlegar lagalegar flækjur þar sem pólskir dómstólar gætu valið hvort þeir beiti pólskum lögum eða lögum ESB, að því er sérfræðingar hafa greint frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert