Þrúgandi þögn yfir máli Peng Shuai í Kína

Ekkert hefur spurst til Peng Shuai síðan 7. nóvember síðastliðinn.
Ekkert hefur spurst til Peng Shuai síðan 7. nóvember síðastliðinn. AFP

Þrúgandi þögn hefur ríkt yfir máli kínversku tennisstjörnunnar Peng Shuai, sem ekkert hefur spurst til síðan hún ásakaði fyrrverandi varaforseta Kína, Zhang Gaoli, um að hafa nauðgað sér.

Eftir að bandaríska tennisstjarnan Chris Evert lýsti yfir áhyggjum sínum af Shuai í twitterfærslu í gær sendi tennissamband kvenna (WTA) frá sér yfirlýsingu þar sem þess er krafist að mál Shuai verði rannsakað að fullu, án ritskoðunar og með sanngirni og gagnsæi að leiðarljósi.

Kínverska tennissambandið enn ekki tjáð sig

Shuai skrifaði langa færslu á kín­verska sam­fé­lags­miðil­inn Wei­bo, sem er sam­bæri­leg­ur Face­book, fyr­ir viku þar sem hún sagði Ga­oli, sem er 75 ára, hafa þvingað sig til kyn­maka.

Færsl­unni var fljót­lega eytt ásamt fleiri ný­leg­um færsl­um henn­ar á miðlin­um. Þá hafa nöfn Shuai og Gaolis ásamt kín­verska orðinu yfir tenn­is verið ritskoðuð á helstu leitarvélum í Kína.

Weibo-reikningur Shuai finnst ekki heldur sé hann sleginn inn í leitarvélar, þótt reikningurinn sé enn aðgengilegur í gegnum beinan veftengil, að því er fréttastofa AFP greinir frá.

Zhang Gaoli, fyrrverandi varaforseti Kína.
Zhang Gaoli, fyrrverandi varaforseti Kína. AFP

Ekki náðist í kínverska tennissambandið við vinnslu fréttar AFP.

Steve Simon, stjórnarformaður WTA, segir mál Shuai valda stjórn sambandsins miklum áhyggjum og hefur hann kallað eftir því að fullyrðingar hennar verði teknar alvarlega.

„Heilbrigði og öryggi leikmanna okkar er í algerum forgangi. Við erum að tjá okkur svo réttlætið nái fram að ganga,“ segir í yfirlýsingu frá sambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert