Finnst hvergi eftir ásökun um nauðgun

Ekki er vitað hvar Peng Shuai er niðurkomin.
Ekki er vitað hvar Peng Shuai er niðurkomin. AFP

Kínverska tenniskonan Peng Shuai virðist hafa horfið sporlaust eftir að hún ásakaði fyrrverandi varaforseta Kína, Zhang Gaoli, um að hafa nauðgað sér.

Shuai skrifaði langa færslu á kínverska samfélagsmiðilinn Weibo, sem er sambærilegur Facebook, fyrir viku síðan þar sem hún sagði Gaoli, sem er 75 ára, hafa þvingað sig til kynmaka.

Færslunni var fljótlega eytt ásamt fleiri nýlegum færslum hennar á miðlinum. Kínverska orðið yfir tennis var meira að segja ritskoðað á Weibo.

Shuai, sem er 35 ára gömul, vakti athygli árið 2014 fyrir að vinna Opna franska meistaramótið í tvíliðaleik.

Ásakanir í tengslum við #ÉgLíka byltingar hafa áður komið fram í dagsljósið í Kína en talið er að þetta sé í fyrsta sinn sem hátt settur aðili innan kommúnistaflokksins þar í landi er ásakaður um kynferðisbrot.

Zhang Gaoli.
Zhang Gaoli. AFP

Í færslunni segir Shuai frá því að þau Gaoli hafi sofið saman árið 2011. Hugsanlegt er talið að þau hafi einnig sofið saman aftur síðar á því ári áður en Gaoli lokaði á öll samskipti við hana.

Árið 2018, þegar Gaoli var hættur í pólitík, bauð hann Shuai í mat með eiginkonu sinni. Síðar um kvöldið neyddi hann hana til samræðis, þar sem hún segist í færslunni hafa grátið og hafnað honum ítrekað áður en hún lét svo undan.

Nauðgunin hafi svo markað upphafið af þriggja ára sambandi sem Shuai lýsti sem „óþægilegu.“ Gaoli var giftur á meðan framhjáhaldinu stóð og er það enn.

Sem áður segir er ekki vitað hvað Shuai er niðurkomin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka