Hótar að slíta viðskiptatengslum við Kína

Ekkert hefur spurst til kínversku tennisstjörnunnar Peng Shuai síðan 2. …
Ekkert hefur spurst til kínversku tennisstjörnunnar Peng Shuai síðan 2. nóvember síðastliðinn. AFP

Steve Simon, formaður Tennissambands kvenna (WTA), segist vera reiðubúinn að slíta viðskiptatengslum við Kína finnist kínverska tennisstjarnan Peng Shuai ekki og ásakanir hennar á hendur Zhang Ga­oli, æðsta embættismanns kínverska Kommúnistaflokksins, verði ekki rannsakaðar.

Tilbúinn að tapa hundruðum milljóna

Ummælin lét formaðurinn falla í gær eftir að tennisstjarnan Serena Williams kallaði eftir því að brotthvarf Shuai yrði rannsakað, að því er AFP greinir frá.

Fyrr í þessum mánuði skrifaði Shuai langa færslu á kín­verska sam­fé­lags­miðil­inn Wei­bo, sem er sam­bæri­leg­ur Face­book, þar sem hún fullyrti að hafa átt í ástarsambandi við hinn 75 ára gamla Ga­oli og að hann hafi nauðgað henni. 

Fullyrðingarnar, sem færðu #MeToo-hreyfinguna inn á æðsta stig kínverska Kommúnistaflokksins, voru fljótlega hreinsaðar af samfélagsmiðlinum og hefur ekkert spurst til Shuai síðan.

Steve Simon, formaður tennissambands kvenna (WTA).
Steve Simon, formaður tennissambands kvenna (WTA). AFP

Serena Williams niðurbrotin og hneyksluð

Simon sagði í viðtali við CNN að hann væri tilbúinn að tapa hundruðum milljóna bandaríkjadala með því að slíta viðskiptatengslum við Kína til að tryggja öryggi Shuai.

„Við erum klárlega tilbúin að draga öll okkar viðskipti og alla okkar samninga til baka með öllum þeim flækjum sem því fylgir,“

„Konur eiga virðingu skilið og þær á ekki að ritskoða,“ bætti hann við.

Serena Williams gekk til liðs við Naomi Osaka og Novak Djokovic til að vekja athygli á málinu á fimmtudag.

„Ég er niðurbrotin og hneyksluð yfir fréttum af Peng Shuai,“ skrifaði fyrrverandi heimsmeistarinn á samfélagsmiðlinum Twitter.

„Ég vona að hún sé heil á húfi og að hún finnist sem allra fyrst. Þetta mál verður að rannsaka og við megum ekki líta undan.“

Með færslunni fylgdi glaðleg mynd af Shuai með yfirskriftinni #WhereIsPengShuai, eða hvar er Peng Shuai.

Dularfullur tölvupóstur kom upp á yfirborðið

Er þrýstingur hefur aukist á kínversk yfirvöld til að bregðast við máli Shuai hefur WTA, æðsta stofnun kvenna í tennis, kallað eftir sönnunum fyrir því hún sé örugg.

Yfirvöld í Peking hafa ítrekað neitað að tjá sig um málið og afdrif Shuai.

Hu Xijin, ritstjóri hins ríkisrekna Global Times, skrifaði hinsvegar færslu á Twitter á föstudag þar sem hann kvaðst ekki trúa því að Shuai hafi verið hefnt fyrir fullyrðingarnar.

Fyrr í vikunni birti hinn ríkisrekni fréttamiðill CGTN svo skjáskot á Twitter af því sem á að vera tölvupóstur sem Shuai á að hafa sent Simon og öðrum forsvarsmönnum WTA.

Í tölvupóstinum heldur Shuai því fram að fyrri ásakanir hennar séu ekki sannar og að hún sé í lagi. Hún sé aðeins heima hjá sér að hvíla sig.

Sannleiksgildi tölvupóstsins dregið í efa

Dregið hefur verið í efa að Shuai sjálf hafi raunverulega skrifað tölvupóstinn enda sammælist rithátturinn sem notaður var í honum ekki rithætti Shuai. Þá bentu Twitter-notendur á að músabendill væri sýnilegur á skjáskotinu sem CGTN birti.

Simon sagðist eiga erfitt með að trúa því að tölvupósturinn væri ósvikinn.

„Hvort hún hafi verið þvinguð til að skrifa hann eða hvort einhver hafi skrifað hann fyrir hana vitum við ekki,“ sagði hann í samtali við CNN.

„En á þessum tímapunkti tel ég að þessi tölvupóstur sé ekki áreiðanleg heimild og munum við ekki vera róleg fyrr en við höfum fengið tækifæri til að tala við Shuai sjálfa.“

Stjórnvöld í Peking hafa löngum verið ásökuð um að þvinga fólk til játninga í ríkisfjölmiðlum og hafa breskir eftirlitsaðilar afturkallað leyfi CGTN fyrir að fara ekki eftir sanngirnis- og persónuverndarreglum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert