Mesti hiti á heimskautinu staðfestur

Petteri Taalas, framkvæmdastjóri WMO.
Petteri Taalas, framkvæmdastjóri WMO. AFP

Alþjóðaveðurfræðistofnunin, WMO, hefur staðfest að 38 stiga hiti, sem mældist í rússneska bænum Verkhoyansk í Jakútíu, stærsta héraði Rússlands, 20. júní í fyrra sé hæsta hitastig, sem nokkru sinni hefur mælst norðan heimskautsbaugs. Verkhoyansk, sem er 115 kílómetra norðan baugsins, er fjórði minnsti bær Rússlands með sína 1.311 íbúa.

WMO greindi frá þessari niðurstöðu sinni í gær auk þess sem forstjóri stofnunarinnar, Petteri Taalas, kvað óvenjuháar hitatölur sums staðar í heiminum hringja viðvörunarbjöllum um hækkandi hitastig á jörðinni. Nefndi Taalas þar sérstaklega tölur, sem stofnunin ynni nú að því að staðfesta, 54,4 stiga hita í Dauðadal í Kaliforníu í fyrra og nú í ár, ásamt 48,8 gráðum á Sikiley í sumar, sem, fáist mælingin staðfest, er hæsta hitastig sem mælst hefur í Evrópu.

Stofna nýjan flokk rannsókna

„Skráningardeild veðuröfga hjá WMO hefur aldrei áður unnið að svo mörgum rannsóknum samtímis,“ er haft eftir Taalas í frétt WMO um nýju hitametin á heimasíðu stofnunarinnar í gær þar sem enn fremur segir af því, að nefnd sérfræðinga á vegum hennar hafi ákveðið að stofna nýjan efnisflokk innan hitastigsrannsókna, sem fjalli um mesta mælda hita norðan heimskautsbaugs, en ýmissa grasa kennir í rannsóknum WMO og falla þar reglulega met, sem snúa að hitastigi, regni, mestu hagléljum, lengstu þurrkatíð, sterkustu vindhviðum, lengst varandi eldingaglömpum og veðurtengdum dauðsföllum svo eitthvað sé nefnt.

Með tilkomu nýja norðurskautsflokksins eiga bæði heimskautin sér veðuröfgaflokka hjá rannsakendum WMO, en suðurheimskautið fékk eigin flokk árið 2007.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert