Landslag Tonga svipar nú til tunglsins

Eyjan Tonga í Kyrrahafi er þakin ösku eftir að sprenging varð í neðansjávareldgosinu í Hunga-Tonga-Hunga-Ha’apai eldfjallinu í grennd við eyjuna í gærmorgun. Að sögn heimamanna minnir Tonga nú helst á tunglið. BBC greinir frá.

Askan hefur að sögn Jacindu Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, mengað vatnsbirgðir. Þá hafa hjálparsamtök beðið yfirvöld um að segja Tongverjum að drekka vatn úr flöskum og nota andlitsgrímur til að verja lungu fyrir ösku og reyk.

Erfitt að ná sambandi við Tongverja

Í gær var öskufall svo mikið að myrkur skall á og miklar umferðarteppur mynduðust þegar íbúar láglendissvæða flúðu heimili sín. Þá hefur reynst nærri ómögulegt að hafa samband við íbúa eyjunnar þar sem símasamband og net lá niðri.

Ardern sagði að verið væri að koma rafmagni aftur á hluta eyjunnar og að farsímasamband væri smám saman að koma aftur. Þó er ekki vitað hvernig ástandið er á sumum strandsvæðum.

Gervihnattamyndir sýna risavaxinn gosmökk rísa upp í að minnsta kosti …
Gervihnattamyndir sýna risavaxinn gosmökk rísa upp í að minnsta kosti 30 kílómetra hæð á stuttum tíma. AFP

Margir Tongverjar í bæði Ástralíu og Nýja-Sjálandi hafi ekki náð sambandi við vini og fjölskyldumeðlimi og hafa áhyggjur af öryggi þeirra.

„Þetta er allt mjög sorglegt, við vonum það besta,“ sagði Ardern við BBC fréttastofuna og bætti við að áhrifin myndu bitna hart á Tongverjum sem hafi þurft að sæta miklum samkomutakmörkunum í langan tíma og engir ferðamenn getað heimsótt eyjuna.

Nýja-Sjáland og Ástralía sendu eftirlitsflug á svæðið til að meta umfang tjónsins. Gervihnattamyndir benda til þess að sumar eyjar í kring séu algjörlega á kafi í sjó.

Stór hluti þurrkaðist út

Eldfjallafræði og náttúruvárhópur Íslands birtu ratsjármyndir frá Copernicus EU sem teknar voru fyrir og eftir eldgosið en stór hluti eyjarinnar Hunga Tonga-Hunga Ha'apai þurrkaðist út við umbrotin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert