Íbúar á Tonga-eyjaklasanum í Kyrrahafi berjast nú við að hreinsa þykkt lag af ösku af aðal flugvellinum á svæðinu til þess að gera flutning neyðarbirgða til landsins mögulega. Neðansjávargos á svæðinu varð á laugardag og hefur það ollið verulegri eyðileggingu.
T.a.m. eyðilagðist neðansjávarstrengur í gosinu og varð það til þess að slitið var á nánast öll samskipti eyjaskeggja við umheiminn. Það mun taka að minnsta kosti fjórar vikur að laga strenginn. Takmörkuð samskipti hafa farið fram í gegnum örfáa gervihnattasíma sem eru staðsettir í nokkrum opinberum byggingum á svæðinu.
Í það minnsta þrír létust í gosinu og nokkuð margir særðust. Ekki er vitað nákvæmlega hversu margir. Ríkisstjórnin í Tonga hefur kallað eldgosið „ófyrirsjáanlegt stórslys“.
Öskufallið og flóðbylgjurnar sem urðu í kjölfar gossins höfðu áhrif á að minnsta kosti 100.000 manns, að sögn Rauða krossins á Tonga.
Ástralir og Nýsjálendingar eru tilbúnir í að senda neyðaraðstoð til Tonga um leið og aska hefur veið fjarlægð af flugvellinum. Öskulagið þar er á milli fimm og tíu sentímetra þykkt. Erfiðlega hefr gengist að losna við öskuna, sérstaklega þar sem enn bætist í öskufallið.