Tongverska blaðakonan Marian Kupu er ein fárra sem náð hefur að halda sambandi við umheiminn og greina frá stöðu mála eftir sprengigos varð í eldfjallinu Hunga-Tonga-Hunga-Ha‘apai eldfjallinu í Tonga-eyjaklasanum á laugardag.
Þykkt lag af ösku liggur nú yfir eyjaklasanum, þar á meðal höfuðborginni Nuku‘alofa. Þar situr Kupu á skrifstofu sinni á fréttamiðlinum Broadcom Broadcasting, og reynir að greina frá því sem gerst hefur.
Lítið samband hefur náðst við Tongverja vegna þess að neðansjávarstrengur fór í sundur í eldgosinu. Aðeins hefur verið hægt að notast við 2G netkerfið og gervihnattasíma.
BBC ræddi við Kupu sem segir í raun allt hafa orðið grátt í kjölfar sprengingarinnar í eldfjallinu. Húsin, bílarnir, laufin á trjánum og jafnvel hundarnir séu þaktir ösku.
Hún ræddi við BBC um svipað leyti og fyrstu flugvélar með hjálpargögn lentu á eyjunni. En hún sagði alla hafa beðið fyrir því að vatnsbirgðir bærust fljótt, þar sem drykkjarvatn hefði mengast af öskunni. Þá vonast íbúar eftir rigningu til að auðvelda þeim hreinsunarstarf, en hún er ekki í kortunum næstu daga.
„Við erum mjög upptekin núna á vinnustaðnum. Við erum að reyna að svara fyrirspurnum frá fjölmiðlum um allan heim til að reyna að gefa fólki einhverja mynd af því sem gerst hefur og stöðunni á Tonga þessa stundina.“
Kupu segir unga menn úr þorpunum í kring hafa komið til að hreinsa flugbrautina svo flugvélar gætu lent með hjálpargögn, sem nú eru farin að berast frá Nýja-Sjálandi og Ástralíu.
Staðfest er að þrír hafi látist vegna eldgossins en Kupu segir að mannfall hefði eflaust orðið miklu meira ef íbúar hefði ekki verið meðvitaðir um hættuna sem stafaði af eldfjallinu. „Við urðum vör við litlar sprengingar og reykjarmökkur steig upp frá vesturhlutanum. Þegar sprengingin varð vissum við mætavel að hún var í eldfjallinu. Það eina sem komst hjá fólki var að forða sér frá vesturhlutanum og ströndunni,“ segir Kupu, en stór flóðbylgja fylgdi í kjölfar sprengingarinnar.