Svíar gjörbreyta um stefnu og senda vopn

Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP

Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, hefur tilkynnt að sænska ríkistjórnin muni senda herbúnað og vopn til Úkraínu.

Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 1939 sem Svíþjóð sendir vopn til lands sem er í stríði. Síðast voru send vopn til Finnlands þegar grannríkið varðist innrás Sovétríkjanna.

Andersson sagði að sendingin myndi innihalda 5.000 sprengjuvörpur gegn skriðdrekum, 5.000 herbrynjur, 5.000 hjálma og 135.000 matarpakka.

Reyk leggur frá rússneskum skriðdreka í vegkanti í Luhansk í …
Reyk leggur frá rússneskum skriðdreka í vegkanti í Luhansk í gær. AFP

Óskuðu eftir háþróuðu vopni

„Okkar niðurstaða er sú að það öryggi okkar sé best tryggt með því að styðja við Úkraínu í átökum sínum við Rússa,“ sagði Andersson.

Sænskir miðlar hafa greint frá því að Úkraínu hafi óskað sérstaklega eftir háþróuðu vopni gegn skriðdrekum sem nefnist Robot-57. 

Auðvelt í notkun

„Úkraína hefur óskað eftir vopni sem getur grandað skriðdrekum og brynvörðum farartækjum,“ segir Peter Hultqvist, varnamálaráðherra Svíþjóðar, og bætti því við að það væri auðvelt í notkun, þarfnaðist ekki þjálfunar og geti verið beitt af einum hermanni. 

Þessi tilkynning kemur eftir að Evrópusambandið tilkynnti að það myndi kaupa og flytja vopn til Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert