Vilja vopn en líklegra að þeir fái matarpakka

Vladimír Pútín hefur óskað eftir hergögnum frá Kína.
Vladimír Pútín hefur óskað eftir hergögnum frá Kína. AFP/ Mikhail Klimentyev

Loftvarnarflaugar, drónar, brynvarin ökutæki, flutningabifreiðar og njósnatengdur búnaður eru efst á þeim óskalista sem rússnesk stjórnvöld hafa sent Kína, ef marka má heimildir Financial Times.

Þá hafa Rússar einnig óskað eftir sérstökum matarpökkum fyrir herlið sitt. Í umfjöllun CNN kemur fram að líklegra sé að Kína verði við þeirri ósk, enda takist þeim þá áfram að sigla milli skers og báru með því að veita Rússum aðstoð, en þó ekki útvega þeim hrein og klár vopn.

Yf­ir­völd í Kína hafa sýnt fram á vilja til að rétta Rúss­um hjálp­ar­hönd, eins og Rúss­ar óskuðu eft­ir, vegna inn­rás­ar­inn­ar í Úkraínu.

Xi Jinping, forseti Kína, vill viðhalda hlutlausri ímynd Kína.
Xi Jinping, forseti Kína, vill viðhalda hlutlausri ímynd Kína. AFP

Xi óttast viðskiptaþvinganir

Ekki ligg­ur fyr­ir hvort Kína sé nú þegar byrjað að veita Rússlandi um­rædd­an stuðning eða hvort í þessu fel­ist lof­orð um að hann verði veitt­ur í ná­inni framtíð.

Æðstu menn Kommúnistaflokksins í Kína eru ekki á eitt sammála um það hvernig sé best að snúa sér í málinu. Harðar viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja og samstaða aðildaríkja Atlantshafsbandalagsins hafa dregið úr lyst Xi Jinping, forseta Kína, á því að standa með Pútín, enda reiðir Kína sig enn talsvert á vestræn viðskipti.

Á alþjóðleg­um vett­vangi kef­ur Kína viljað halda hlut­lausri stöðu að nafn­inu til. Þannig hafa stjórn­völd ekki for­dæmt aðgerðir Rússa eða tekið þátt í efna­hagsþving­un­um gegn þeim, en held­ur ekki lýst yfir stuðningi við inn­rás­ina í Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert