„Hef áhyggjur af því að sonurinn muni gleyma mér“

Sergei og Irína með soninn Danílo sem er nú orðinn …
Sergei og Irína með soninn Danílo sem er nú orðinn rúmlega sex mánaða.

Martraðir eru daglegur hluti af lífi íbúa í Úkraínu eftir að stríðið hófst að sögn Jaroslavs. Hann glímir sjálfur við slíkt og eru þær að verða óskiljanlegri en áður. Nú er liðinn tæplega mánuður síðan eiginkona og barn Sergeis flúðu landið, en hann varð eftir líkt og flestir karlmenn á hans aldri. Hann segist nú orðinn áhyggjufullur að sex mánaða sonurinn gleymi sér þegar hann nái ekki að taka þátt í uppeldinu. Karíne rifjar upp nauðaflutninga Sovétmanna á Krím-Töturum á síðustu öld og líkir því við ástandið á hernumdum svæðum í Úkraínu í dag. 

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins, Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­ine í borg­inni Karkív í aust­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upp­lif­un­um sín­um og greina frá því hvað efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Jaroslav í Ódessu

Ég hef alltaf hrifist af súrrealísku og draumkenndu andrúmslofti í kvikmyndum og verkum leikstjóra eins og David Lynch, Tarkovsky o.fl. Hins vegar á ég mjög erfitt með að muna eigin drauma þegar ég vakna á morgnana. Kannski helgast það af rótgrónu svefnleysi. Ein af uppáhalds kvikmyndunum mínum er Groundhog day með Bill Murray. Munið þið eftir svipbrigðum hans í myndinni? Ég held að þau svipbrigði lýsti best hvernig mér hefur liðið síðasta 41 dag.

Jaroslav segir martraðir mjög algengar eftir að stríðið braust út, …
Jaroslav segir martraðir mjög algengar eftir að stríðið braust út, en draumarnir nú séu orðnir óskiljanlegri en áður. Ljósmynd/Jaroslav

 

Þegar ég kom heim eftir vinnuna í dag gat ég aðeins farið upp í rúm og sofnað. Ólíkt mér vaknaði ég upp við martröð, en í þetta skiptið var draumurinn óskiljanlegur og óhlutbundinn. Það er nokkuð öðru vísi en hefðbundnar martraðir sem tengjast beint stríðinu og öllum hryllingnum í kringum stríðið, en ég er nokkuð viss um að allir hér hafi fengið slíkar martraðir fyrstu viku stríðsins.

Ég fékk svo óvænt símtal í dag frá gömlum félaga í tónlistinni, en hann er frá Austurríki. Við áttum langt samtal, en þetta er í fyrsta skiptið sem við heyrðum hvor í öðrum frá því að stríðið braust út. Hann sagði mér frá sjálfboðastarfi sem hann væri að vinna að tengt stríðinu í sinni heimaborg. Ég gat ekki varist því að brosa smá þegar ég heyrði að hann væri að standa í slíku og ég hef aldrei þráð jafn mikið að faðma hann jafn mikið og þegar við enduðum símtalið.

Á morgun mun ég hitta hópinn frá úkraínska hernum aftur. Okkur hefur tekist að aðstoða þá með ýmiss verkefni í gegnum sjálfboðastarfið og við sjáum þegar afraksturinn af þeirri vinnu. Því miður get ég ekki upplýst nánar um þau mál, en trúið mér, það verður ekki það síðasta sem við munum gera fyrir varnir borgarinnar.

Sjálfboðahópurinn er einnig að undirbúa hefðbundna útkeyrslu á mat til þeirra sem þurfa aðstoð. Hér má m.a. sjá mynd sem ég tók í bílskúrnum hjá mér í kvöld eftir að við kláruðum undirbúning. Þetta er smá eins og stórmarkaður án hillanna.

Tilbúinn fyrir útkeyrslu matvæla á morgun.
Tilbúinn fyrir útkeyrslu matvæla á morgun. Ljósmynd/Jaroslav

 

Sergei í Lvív

Fertugasti og fyrsti dagur stríðsins. Það virðist eins og heil eilífð hafi liðið, en ekki einn og hálfur mánuður, síðan stríðið hófst. Andlega heilsan hjá mér er mun betri í dag en í gær. Dagurinn fór mestallur í að vinna á skrifstofunni. Svo sem ekkert svakalega stórt verkefni, en samt vinna sem þurfti að gera.

Ég talaði við Irínu, eiginkonu mína, í dag. Syni okkar líður vel þar sem þau eru og er næstum því í góðu skapi alla daga. Ég hef áhyggjur af því að sonurinn muni gleyma mér, en Irína fullvissaði mig um að allt væri í lagi og að hann myndi ekki gleyma mér.

Veðrið er eins og áður frekar leiðinlegt, rigning og kuldi, og maður finnur fyrir litlum áhuga á að fara út í göngutúr. Mig langar að reyna að gera eitthvað áhugavert og uppbyggilegt á komandi dögum, vonandi að maður hafi bæði styrk og vilja í það.

Rússarnir reyna áfram að réttlæta fjöldamorð sín og segjast ekki bera ábyrgð á þeim. Það þekkja hins vegar allir þessa orðræðu þeirra. Þeir lugu og munu ljúga. Það er í blóði þeirra og er ekkert nýtt. Þeir segjast alltaf vera saklausir. Ég vona enn að heimurinn muni núna sjá hið rétta andlit „rússismans.“

Staðan: Fékk mér í dag í fyrsta skiptið í marga daga kaffi en ekki te.

Karíne í Karkív

Enn einn dagurinn af frelsisstríði okkar sem óvinur okkar hóf. Í langan tíma áttuðum við okkur ekki á þeim hættum sem stafaði af nágranna okkar og hversu undirförull hann er. Allur heimurinn gat ekki ímyndað sér mannhaturslegt eðli hans. En engar frekari tálmyndir. Gjörðir Rússa eru fyrir utan allt siðferði og mannúð. Nú veit allur heimurinn af þessu.

Í dag heyrði ég af því að úkraínska söngkonan Jamala, sem er af ættum Krím-Tatara, hafi komið fram á sjónvarpstónleikum á Íslandi um helgina. Þar var hún ásamt fjölda listamanna í sjónvarpsþættinum Heimsins mikilvægasta kvöld sem var skipulagt af Íslandsskrifstofu UNICEF, en tilgangur útsendingarinnar vara ð safna styrkjum fyrir mannúðaraðstoð til úkraínskra barna.

Jamala sagði frá þessu á Instagram-aðgangi sínum og vilja Íslendinga til að aðstoða Úkraínubúa. Jamala er alveg ótrúleg söngkona, en hún sigraði Eurovision árið 2016 þegar keppnin fór fram í Stokkhólmi.

Söngkonan Jamala.
Söngkonan Jamala.

 

Hún er fyrsti Krím-Tatarinn sem tekur þátt í keppninni og lagið hennar var allt öðruvísi en flest önnur lög sem koma fram í keppninni. Lagið, sem heitir „1944“, er um það þegar Sovéski herinn flutti Krím-Tatara nauðuga í burtu frá Krímskaganum í síðari heimstyrjöldinni, en þetta var gert að beiðni Stalíns.

Þetta var ekkert annað en þjóðarmorð á Krím-Töturum og Jamala tileinkaði ömmu sinni, sem var ein þeirra sem var nauðug flutt á brott ásamt fimm börnum sínum. Hún var ein þeirra 250 þúsund sem voru flutt á brott.

Nú eru Rússar að reyna að halda áfram þessari vegferð sem Stalín hóf á sínum tíma með að nauðbeygja Úkraínubúa að flytja frá hernumdum svæðum innan Úkraínu. Þetta gera þeir með hræðsluáróðri og hryllingi gegn almennum borgurum.

Rússar hertóku Krímskagann árið 2014. Til að réttlæta hernámið var líkt eftir kosningu á svæðinu um hvort Krímskaginn ætti að tilheyra Rússlandi eða ekki. Á þeim tíma var Krímskagi þó undir stjórn Rússa og þeir stýrðu þessari kosningu. Því miður brást alþjóðasamfélagið ekki við þessari lögleysu þá, enda hafði rússneska áróðursvélin náð miklum árangri við að dreifa lygum til heimsbyggðarinnar. En núna hefur allt breyst og fólk víða um heim sér í gegnum lygarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert