Annar læknir átti einnig að fá stöðu grunaðs

Mál ákæruvaldsins gegn Paolo Macchiarini er fyrir héraðsdómi Solna.
Mál ákæruvaldsins gegn Paolo Macchiarini er fyrir héraðsdómi Solna. Ljósmynd/Solna tingsrätt

Ónafngreindur evrópskur brjóstholsskurðlæknir var grunaður um að hafa átt aðild að grófu ofbeldi eða misþyrmingu í plastbarkamálinu og átti viðkomandi að fá stöðu grunaðs ásamt Paolo Macchiarini. Fallið var frá þeirri vegferð í kjölfar þess að lögregla í heimalandi læknisins tókst ekki að verða við beiðni sænskra yfirvalda.

Þetta kemur fram í umfjöllun sænska blaðsins Dagens Medicin um plastbarkamálið í dag.

Lögreglan ekki framfylgt beiðninni

„Við reyndum að tilkynna honum um að hann væri grunaður um að hafa aðstoðað við grófa líkamsárás í gegnum evrópska rannsóknarbeiðni,“ er haft eftir Jim Westerberg, annar tveggja saksóknara sem sækja Paolo Macchiarini til saka fyrir héraðsdómi Solna.

„En okkur var sagt að það væri ekki hægt að framfylgja því,“ bætir Karin Lundström Kron við en hún er hinn saksóknarinn í málinu.

Um er að ræða yngri brjóstholsskurðlækni sem var á skurðstofum á Karolinska háskólasjúkrahúsinu í Huddinge og Solna þegar ígræðsla plastbarka var framkvæmd á árunum 2011 til 2013. Honum hefur áður verið lýst sem nátengdum Macchiarini.

Westerberg segir rannsókn á aðkomu þess læknis hafa verið fellda niður og kveðst ekki geta útskýrt hvers vegna lögreglan í heimalandi læknisins hafi ekki framfylgt beiðninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert