Boris ætlar ekki að segja af sér

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands hefur sætt mikilli gagnrýni upp á …
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands hefur sætt mikilli gagnrýni upp á síðkastið. Fjórir ráðherrar og á annan tug þingmanna hafa sagt af sér í mótmælaskyni. AFP/PRU

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segist ekki ætla að segja af sér þrátt fyrir það að á síðastliðnum sólarhring hafi á annan tug þingmanna sagt af sér í mótmælaskyni gagnvart Johnson, þar á meðal fjórir ráðherrar.

„Starf forsætisráðherra í erfiðum aðstæðum, þegar þú stendur frammi fyrir risastóru verkefni, er að halda ótrauður áfram og það er það sem ég ætla að gera,“ sagði Johnson á breska þinginu.

Ráðherr­arn­ir sögðu af sér í kjöl­far þess að Chris Pincher var vikið úr Íhalds­flokkn­um í Bretlandi eft­ir ásak­an­ir um að hafa þuklað á tveim­ur karl­mönn­um á fylle­ríi. Að mati ráðherr­anna var málið illa meðhöndlað af John­son og eru þeir ósátt­ir við að John­son hafi ráðið Pincher sem varaþing­flokks­formann þrátt fyr­ir að vita af fyrri ásök­un­um gegn hon­um.

Þá hafa fyrri hneykslismál tengd Johnson eflaust haft áhrif, til að mynda veisluhöld sem forsætisráðherrann tók þátt í á Downing stræti þegar strangar sóttvarnartakmarkanir voru við líði í landinu.

Vantrauststillaga á hendur Johnson var felld fyrir mánuði síðan með 211 atkvæðum gegn 148.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert