Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segist ekki ætla að segja af sér þrátt fyrir það að á síðastliðnum sólarhring hafi á annan tug þingmanna sagt af sér í mótmælaskyni gagnvart Johnson, þar á meðal fjórir ráðherrar.
„Starf forsætisráðherra í erfiðum aðstæðum, þegar þú stendur frammi fyrir risastóru verkefni, er að halda ótrauður áfram og það er það sem ég ætla að gera,“ sagði Johnson á breska þinginu.
Ráðherrarnir sögðu af sér í kjölfar þess að Chris Pincher var vikið úr Íhaldsflokknum í Bretlandi eftir ásakanir um að hafa þuklað á tveimur karlmönnum á fylleríi. Að mati ráðherranna var málið illa meðhöndlað af Johnson og eru þeir ósáttir við að Johnson hafi ráðið Pincher sem varaþingflokksformann þrátt fyrir að vita af fyrri ásökunum gegn honum.
Þá hafa fyrri hneykslismál tengd Johnson eflaust haft áhrif, til að mynda veisluhöld sem forsætisráðherrann tók þátt í á Downing stræti þegar strangar sóttvarnartakmarkanir voru við líði í landinu.
Vantrauststillaga á hendur Johnson var felld fyrir mánuði síðan með 211 atkvæðum gegn 148.