Tveir þingmenn úr röðum Íhaldsmanna hafa í morgun hvatt Boris Johnson til að segja af sér embætti forsætisráðherra Bretlands.
Sir Bernard Jenkin segist í samtali við BBC hafa sagt Johnson, sem einnig er Íhaldsmaður, í gær að hann „geti hætt með einhverri reisn“ eða að hann geti verið „þvingaður út eins og Donald Trump [fyrrverandi Bandaríkjaforseti], ríghaldandi í völdin og láta sem hann hafi unnið kosningarnar sem hann tapaði“.
Jenkin sagði að það væri „engin spurning um að þetta er búið fyrir Boris Johnson sem forsætisráðherra.“ Hann bætti við að hann hafi sagt Johnson að „það er bara spurning hvenær og hvernig þú ferð".
Robert Halfon sagði við BBC að almenningur sé vonsvikinn og að Íhaldsflokkurinn treysti ekki lengur leiðtoga sínum. Halfon, sem studdi Johnson þegar atkvæðagreiðsla fór fram vegna vantrauststillögu á hendur honum í síðasta mánuði, hvatti forsætisráðherrann til að víkja úr embætti, bæði fyrir þjóðina, ríkisstjórnina og samstöðuna innan Íhaldsflokksins.
Annar þingmaður Íhaldsmanna, Steve Baker, sagði í þættinum Today að „það er greinilegt núna í morgun að ríkisstjórnin er í frjálsu falli“. Hann bætti við að núverandi stöðu „muni ljúka á næstu dögum“ og sagði „tímabært að hugsa um framtíðina“.
Hann hvatti til þess að reglum yrði breytt svo að aftur væri hægt að greiða atkvæði vegna vantrauststillögu á hendur Johnson. Hann vonar að atkvæðagreiðslan geti í síðasta lagi farið fram næsta þriðjudag.