Líkt við strút sem stingur höfðinu í sandinn

Boris Johnson í morgun.
Boris Johnson í morgun. AFP/Justin Tallis

Kjósendur í kjördæmi Boris Johnson, Uxbridge and South Ruislip, styðja flestir ákvörðun hans um að segja af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins og halda sumir því fram að það sé kominn tími til að hann hætti einnig sem þingmaður þeirra.

Sheila Gibb, sem hefur aldrei stutt Johnson, sagði að hann muni ekki lengur geta „sýnt andlit sitt“ í vesturhluta London, hann verði gjörsamlega niðurlægður.

„Ég er viss um að hann muni segja af sér sem þingmaður. Það ætti hann að gera líka, en hann skortir heiðarleika,“ sagði hún við blaðamann BBC.

„Honum er alveg sama um þetta svæði“

Mark Lewis, íbúi í Uxbridge, líkti Johnson við strút sem stingur höfðinu í sandinn og var sammála Gibb um að tími hans sem þingmaður kunni að vera liðinn. „Honum er alveg sama um þetta svæði,“ sagði hann.

Þó að flestir væru ánægðir með ákvörðun Johnson, höfðu sumir íbúar í Uxbridge samúð með honum.

„Hann stóð sig vel í langan tíma og tók nokkrar góðar ákvarðanir. Ég held að okkur hafi gengið vel á meðan á Covid stóð og með bóluefni, það var mjög erfitt fyrir hann,“ sagði Maqsud Gillani.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert