Hætta við brúðkaupsveislu í setri í eigu ríkisins

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands og Carrie Johnson giftu sig í …
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands og Carrie Johnson giftu sig í fyrra. AFP

Boris Johnson og Carrie Johnson sem giftu sig í maí í fyrra hafa nú hætt við að halda brúðkaupsveislu í setri í eigu breska ríkisins. Fyrirhuguð veisluhöld hafa mætt þó nokkurri gagnrýni eftir að fjöldi hneykslismála urðu til þess að Boris tilkynnti í fyrradag að hann ætli að segja af sér. 

Mismælti sig þegar hann tilkynnti afsögnina

Boris hefur nú tilkynnt afsögn sína sem leiðtogi Íhaldsflokksins og að hann muni jafnframt stíga af stalli sem forsætisráðherra Bretlands. Það mun þó ekki taka gildi fyrr en að Íhaldsflokkurinn velur nýjan formann á næstu mánuðum.

Boris hefur verið sakaður um að hafa haldið í völdin sem forsætisráðherra að hluta til vegna þess að hann hafði nú þegar sent út boðskort í brúðkaupsveisluna. Fyrirhugað var að halda hana í Chequers, sveitasetri forsætisráðherra Bretlands, þann 30. júlí. 

„Rígheldur í völd fyrir hinsta dansinn,“ stóð til að mynda í frétt fréttastofu Daily Mirror um málið. Það er jafnframt tilvitnun í veisluhöld í Downingstræti sem fóru fram á meðan á kórónuveirufaraldrinum stóð.

Þá hafa gagnrýnendur Boris sakað hann um að hafa haft fyrirhugaða veislu í setrinu í huga þegar hann tilkynnti afsögn sína fyrir utan Downingstræti í gær. Þá mismælti hann sig og sagði í ræðu sinni, „ég vil þakka öllu frábæra starfsfólkinu hér í Chequers“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert